Við erum yfirleitt stolt og glöð yfir því hvað nemendum okkar líður almennt vel í skólanum og sjálfsagt mun enginn neita því að vellíðan er mikilvæg forsenda þess að ná árangri hvort sem það er námsgrein, félagsfærni eða annar persónulegur þroski. Reynslan segir mér að flestir foreldrar telja vellíðan barna sinna í skólanum skipta meira máli en einkunnir þeirra, svo framarlega sem þær eru ásættanlegar. Stundum heyrist mér jafnvel eins og vellíðan og árangur séu sett fram eins og annað sé á kostnað hins og þá þannig að árangur skipti minna máli.
Samanborið við sumar aðrar þjóðir höfum við verið heppin að því leyti að hér hefur verið minni áhersla á samanburð og samkeppni milli einstaklinga og skóla. Í Englandi t.d. eru gæði skóla reglulega metin samkvæmt ákveðnum stöðlum og eftir árangri nemenda í samræmdum prófum og niðurstöður birtar í fjölmiðlum og á opinberum vefsíðum Ofsted þar sem skólum er raðað í gæðaröð. Eins og að líkum lætur hefur þetta þau áhrif á starfið í skólunum að það einkennist oft af áherslum á að auka námsárangur nemenda og að undirbúa þá undir samræmdu prófin.
Þegar mikið er lagt upp úr niðurstöðum mælinga á námsárangri er hætt við að þær námsgreinar sem auðveldast er að mæla fái mest vægi í námsskránni. Það er jú mun auðveldara að meta getu nemenda í stærðfræði og stafsetningu (maður telur bara villurnar) en t.d. félagsfærni þó flestir telji hana ekki minna virði til að geta tekið þátt í lýðræðisþjóðfélagi.
Sú blessun að hafa sloppið við þessa mælinga -og samanburðaráráttu þarf samt ekki að leiða til þess að við setjum nemendum okkar ekki markmið í námi sínu. Í daglegu lífi erum við sjálf alltaf að setja okkur einhver markmið: Við ætlum að prjóna tiltekna peysu fyrir jólin, léttast um ákveðinn kílóafjölda fyrir sumarleyfið, hlaupa 10 km. í Reykjavíkurmaraþoni, baka góðu döðlukökuna fyrir afmælið, heimsækja frænku á elliheimilið um helgina o.s.frv. Með reynslunni lærum við vonandi að setja okkur raunhæf markmið því líklega er fátt sem veitir okkur jafn mikla ánægju og fer eins vel með sjálfsmyndina og það að ná tilsettu marki eins og glöggt mátti sjá á Facebook í lok Reykjavíkurmaraþonsins. Er einhver ástæða til að ætla að því sé öðruvísi farið með nemendur okkar? Ætli það sé ekki ein mikilvægasta leiðin til að byggja upp jákvæðan metnað og stuðla að góðri líðan þeirra í skólanum að þau læri, í samstarfi við kennara sína og foreldra, að setja sér raunhæf og merkingarbær markmið í námi sínu og veita þeim góða leiðsögn svo þau geti orðið stolt og glöð yfir árangri sínum?
Í aðalnámskrá grunnskóla segir að í námsmati skuli leggja megin áherslu á leiðsagnarmat en forsenda leiðsagnarmats er einmitt sú að nemandanum sé alltaf ljóst að hvaða markmiði hann er að stefna, hvort sem það er í kennslustundinni eða yfir lengra tímabil og að hann viti alltaf hvar hann er staddur í ferlinu og hvert sé næsta skref. Eins og ég nefndi hér á undan þá er hætt við að námsgreinar sem auðvelt er að meta árangur í fái meira vægi en hinar. Líklega fær t.d. félagsfærni, gagnrýnin hugsun, tjáning, sköpun og sjálfsþekking almennt ekki sama sess í hugum okkar fyrr en við getum metið árangurinn á svipaðan hátt. Við sjálf, nemendur okkar og foreldrar þeirra þurfum því að vita hvað felst í þessum markmiðum og hvaða viðmið eru um árangur til að hver og einn nemandi viti hvers vænst er af honum svo hann geti lagt sig fram, náð árangri og ekki síður glaðst yfir því að vera góður í gagnrýninni hugsun en í stafsetningu.
Nemendum á að líða vel í skólanum, það er engin spurning. Það út af fyrir sig getur þó ekki verið megin markmið skólastarfs heldur frekar afleiðing þess að nemendur starfa í vinsamlegu og öruggu lærdómssamfélagi þar sem þeir fá að þroskast, efla færni sína og þekkingu og ná þeim árangri sem þeir stefna að.
NKC
Innlega sammála því að það sé blessun að vera laus við þessa áráttu að etja börnum, kennurum og skólum út í samkeppni. Ég vona að nýji menntamálaráðherrann freistist ekki til að efla samkeppni t.d. með því að hvetja Námsmatsstofnun til að birta niðurstöður prófa, flokkaðar eftir skólum eða hverfum.