Forvarnir gegn einelti ætti að hefja snemma

litirÞað er skelfilegt fyrir foreldra sem vita til þess að barn þeirra verður fyrir einelti í skóla eða frístundastarfi en hafa á tilfinningunni að það sé látið viðgangast. Stundum vegna þess að fagfólkið og foreldrarnir geta ekki orðið ásáttir um hvort um sé að ræða einelti eða ekki. Þannig hefur henni kannski liðið móðurinni sem sat fyrir meintum kvalara dóttur sinnar, greip hann hálstaki og hótaði honum limlestingum ef hann léti ekki þegar af hegðun sinni. Mér skilst að þessi móðir sé alla jafnan kærleiksrík hæglætismanneskja, svo kannski segir þetta okkur hvað stutt er í ofbeldið þegar við teljum börnum okkar ógnað. Það er ekki til eftirbreytni að að reyna að stöðva ofbeldi með ofbeldi fyrir utan það að móðirin gerðist þarna brotleg við lög. Það mætti skrifa heilan pistil um þetta atvik og um inngrip í eineltismálum en nú eru það forvarnirnar sem eru mér hugleiknar.

Í þessum mánuði hef ég setið tvær ráðstefnur um einelti, önnur var um málefni barna en hin um einelti á vinnustöðum. Á báðum ráðstefnunum var niðurstaðan sú að forvarnir væru árangursríkasta leiðin til að takast á við einelti. Stuðla þurfi að starfsanda og skólabrag þar sem einelti nær ekki að festa rætur. Forsendan er aukin þekking á eðli eineltis. Það er því mikið fagnaðarefni að Vanda Sigurgeirsdóttir lektor við Menntavísindasvið HÍ hefur hafið doktorsnám í „eineltisfræðum“. En Vanda hefur látið sig málefnið lengi varða og haldið fjölda fyrirlestra um einelti í skólum og frístundastarfi.

Í erindi sem Vanda flutti á annarri ráðstefnunni beindi hún sérstaklega sjónum að forvörnum meðal ungra barna. Stundum mætti ætla að einelti hefjist þegar börn byrja í grunnskólum, enda hafa hugtökin einelti og grunnskóli oft verið spyrt saman, en staðreyndin er sú að einelti er líka til meðal ungra barna í leikskólum. Að sögn Vöndu er birtingarmynd þess eineltis öðruvísi en hjá eldri börnum. Einelti meðal barna sem eru eldri en  9 ára einkennist líkt og annað ofbeldi af valdaójafnvægi, það eru börn í sterkari stöðu sem leggja börn í veikari stöðu í einelti og eftir því sem eineltið fær að viðgangast þá verður valdaójafnvægið meira. Í leikskólum aftur á móti virðist valdajafnvægðið ekki vera jafn skýrt þar sem árásarhneigð börn áreita ekki endilega veikari og hlédrægari börn heldur eru þau árásarhneigð gagnvart mörgum börnum. Í rannsóknum sem Vanda benti á  kemur fram að bæði börn og starfsfólk getur komið auga á þessa hegðun í barnahópnum. Þetta þýðir að mikilvægt er að beina forvörnum að árásarhneigðum börnum í leikskóla og fyrstu bekkjum grunnskóla. Hér er mikið í húfi ekki aðeins til að stöðva einelti heldur hafa rannsóknir sýnt að þessi börn eru mun líklegri til þess en önnur að feta stíg afbrota og áhættuhegðunar (og enn og áfram vísa ég til erindis Vöndu Sigurgeirsdóttur).

Ákveðinn hluti barna er útsettari fyrir einelti en önnur börn, þetta eru börn sem eru í veikari valdastöðu og eiga því erfiðara með að verjast. Hér er einkum um tvo hópa að ræða minni hópurinn inniheldur börn með ögrandi hegðun en í stærri hópnum eru hlédræg börn. Þetta eru viðkvæmir einstaklingar sem geta verið veikbyggðir, óöruggir, kvíðnir, varkárir og oft vinafáir. Það hefur reynst erfiðara að koma auga á þessa einstaklinga í leikskólanum og yngstu bekkjum grunnskóla, þannig virðast fá börn vera álitin þolendur á þessum árum. Þetta þýðir að það er ekki endilega best að beina forvörnum að ákveðnum börnum, heldur hópnum í heild. Þó þarf að huga sérstaklega að þeim börnum sem sannarlega eru í áhættuhópi eða verða nú þegar fyrir reglulegu áreiti.

Að mínu mati eru hér ótrúlega mikilvæg og áhugaverð sóknarfæri sem geta haft mikil áhrif á líðan og velferð barna og ég hlakka til að heyra meira frá Vöndu Sigurgeirsdóttur varðandi þessi mál.

NCK

One response to “Forvarnir gegn einelti ætti að hefja snemma

  1. Bakvísun: Forvarnir gegn einelti ætti að hefja snemma·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s