Stundum gerast atburðir sem sannfæra mig um að skólinn geti bætt samfélagið. Dæmi um það er þegar sonur vinkonu minnar byrjaði í nýjum grunnskóla fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er óvenju skemmtilegur og lífsglaður strákur þrátt fyrir að hann hafi gengið í gengum afar erfiða læknismeðferð og er auk þess fatlaður. Þetta hafði haft töluverð áhrif á skólagöngu hans fram til þessa svo eðlilega voru foreldranir áhyggjufullir. Hvað myndi gerast í nýjum og fjölmennum skóla þar sem fáir þekktu hann? Gæti sonur þeirra tekiði þátt í hefðbundnu bekkjarstarfi, hvernig myndu hinir nemendurnir taka honum og starfsfólkið? Eftir fund með skólastjóranum og nokkrum starfsmönnum skólans fylltust foreldrarnir bjartsýni. Í stuttu máli þá var drengurinn þeirra innilega velkominn í skólann og allt gert til að honum liði þar sem best. Ég er ekki í nokkrum vafa um að jákvæð viðhorf stjórnenda hafa skipt miklu máli en það sem líklega skipti sköpum var að hinum nemendum skólans var gefið tækifæri til að kynnast drengnum reynslu hans og sérstöðu. Með dyggri aðstoð þroskaþjálfa fór hann inn í bekki og sagði skólafélögum sínum hreinskilnislega frá reynslu sinni og fötlun og á skömmum tíma voru allir nemendur skólans orðir vinir hans. Eins og Thomas Nordahl (2002) bendir á þá skiptir það flest börn meira máli að eignast vini í skólanum en að ná góðum árangri í námi, það að vera virkur og viðurkenndur þátttakandi í samfélagi nemendanna hefur mikil áhrif. Þetta á einnig við um son vinkonu minnar. Sérhver dagur í skólanum var þessum dreng gleðidagur, hann var umvafinn vinum og tók virkan þátt í leik og starfi. Mér er kunnugt um að einhverju sinni þegar verið var að hrósa nokkrum skólabræðrum hans fyrir hvað þeir kæmu vel fram við drenginn hafi þeir orðið undrandi, hann var vinur þeirra og fínn strákur. Viðbrögð þeirra minntu mig á lagið góða: „He Ain’t Heavy, He’s My Brother“?
Nú hefur þessi skemmtilegi strákur lokið grunnskóla og leiðir hans og gömlu skólafélagana liggja ekki lengur saman í daglegu starfi en engu að síður hittir hann enn bestu vini sína úr þessum hópi og það er augljóst að þeir njóta allir samverunnar.
Það er hægt að læra svo margt af þessari reynslu, ekki síst það hvað börn eru opin fyrir fræðslu og hvernig hún getur rutt burt fordómum. Getur verið að helsta ástæða þess hvað fullorðið fólk heldur því oft fram að lík börn leiki best sé sú að við lifum mörg í hólfum, eigum fremur einsleita vina- og samstarfshópa og erum því hálfgerð fórnarlömb vanþekkingar. Skóli fjölbreytileikans hefur einstakt tækifæri til að stuðla að fræðslu nemenda um ólíka menningu, atgervi einstaklinga, viðhorf o.fl. Þegar vel tekst til geta áhrifin á samfélagið orðið ómetanleg.
Nordahl, T. (2002). Eleven som aktør fokus på elevens læring og handlinger i skolen. Oslo: Universitetsforlaget
NKC