Þekkja nemendur aðalnámskrá?

Ég er að lesa  frábæra bók, Whose learning is it? Developing children as active and responsible learners, eftir tvær kennslukonur, Jo Osler og Jill Flack,   sem ákváðu að spyrja nemendur sem þær kenna  í tveimur 5. bekkjum  m.a. um það hvers vegna þeir eru í skóla. Svör nemenda komu þeim á óvart og urðu kveikjan að þeirri rannsókn sem lýst er í bókinni.

Nemendur nefndu flestir í svörum sínum allt aðrar ástæður en þær að þeir væru í skólanum  til að mennta sig. Sum töldu sig vera í skólanum af því  foreldrar þeirru  væru í vinnunni og einhver taldi sig vera í skólanum til að kennararnir hefðu vinnu.  Þessi svör komu höfundum bókarinnar mjög  á óvart  og þær drógu þá ályktun vegna þeirra að þeim hefði ekki tekist að gera nemendur meðvitaða um tilgang veru sinnar í skólanum. Hófust þær því handa við að vinna að því markmiði að nemendur yrðu meðvitaðir og ábyrgir þátttakendur í námi sínu.

Bókin lýsir því ferli á skemmtilegan og áhugaverðan hátt og það eru ekki bara nemendur sem læra í ferlinu heldur læra þær sjálfar mjög mikið.

Þær spyrja nemendur sína um hvað  námskrá sé og komast að því að fæstir nemendur vita neitt um hana og vita varla af því að hún er til. Fyrsta skrefið í ferlinu hjá þeim er því að kynna nemendum námskránna með ákveðnum aðferðum.

Bara þetta litla atriði finnst mér geta skipt mjög miklu máli. Sjáum við til þess að nemendur viti af því samhengi sem vera  þeirra í skólanum er í ? Getur verið að þeir  haldi lengi vel að  allt sem fyrir þá er lagt í skólanum byggist á prívat ákvörðunum kennarans, þó  ætlast sé til að þeir  fari eftir þeim nánast skilyrðislaust?  Það fyrirkomulag ýtir ekki undir samfélagslega vitund nemenda heldur kennir þeim miklu fremur að þeim sé ætlað að lúta valdi einstaklinga sem þeir af einhverjum sökum lenda í bekk hjá. Þannig eru nemendur ekki meðvitaðir þátttakendur í eigin námi og ekki að furða að sumir þeirra lendi upp á kant við kennarann sinn, ef þeir halda að það sé hann einn sem er að ráðskast með lif þeirra á sínum eigin forsendum.

Það hlýtur að vera mikilægt að nemendur séu upplýstir um það samhengi sem skólaganga þeirra er í og að þeir læri að hún er partur af samfélagslegum ákvörðunum sem kennarinn vinnur eftir.  Ef  unnið er markvisst að því með nemendum að  gera þá meðvitaða um samhengið sem nám þeirra er í , öðlast nemendur hæfni til  að skilja hvernig samfélagið virkar og þeir læra  um leið að setja  sig inn í þau kerfi sem samfélagið er byggt upp með. Það ætti að geta leitt til þess að þeir verði upplýstir þátttakendur í samfélagi sem þeir vita hvernig vinnur og á þann hátt er þeim gert kleift að vera virkir  og ábyrgir þátttakendur í  þeim lýðræðislegu ákvörðunum sem teknar eru á hverjum tíma.  Því þannig læra þeir um hvar ákvarðanir eru teknar og hvar mögulegt er að hafa áhrif. Það getur ekki talist  virkt  lýðræði að halda stórum hluta „þegnanna“  óupplýstum um það samhengi sem unnið er í og kerfin sem stýra vinnunni.

Skólar  sem eiga að búa börn undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi verða að starfa sem virk lýðræðissamfélög til að geta gegnt því hlutverki sín.

 EK

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s