Goðsögnin um stærðina

Í Danmörku og reyndar víðar á sér stað töluverð umræða um stærðir á bekkjum og skólum. Danska menntamálaráðuneytið hefur nýlega veitt tveimur sveitarfélögum heimild til að fjölga nemendum í bekkjum upp yfir þau mörk sem lögin kveða á um, sem eru 28 nemendur. Einnig er markvisst verið að fækka litlum skólum í Danmörku.

Þessi ákvörðun hefur vakið miklar deilur í landinu, bæði kennarasamtök og foreldrar hafa lýst yfir óánægju sinni. Varað er við auknum flótta nemenda frá almennu grunnskólunum til einkarekinna grunnskóla sem markaðsetja sig með því að vera bæði litlir og aðeins með 20 nemendur í bekk.

Ákvörðun menntamálráðuneytisins er sögð byggð á niðurstöðum rannsóknar sem unnin var af hópi fræðimanna við Háskólann í Árósum. Samkvæmt niðurstöðum hennar er ekkert sem staðfestir að stærð bekkja eða skóla hafi úrslitaáhrif á gæði skóla. Fræðimennirnir skoðuðu 6000 rannsóknir og fundu 71 sem fullnægja kröfum um gæði. Þeir skoðuðu 11 þætti sem auka námsárangur nemenda þar á meðal stjórnun skólans, félagslega þætti, gildi, kennsluhætti og samstarf heimila og skóla. Einn vandinn við rannsóknina var skilgreiningin á hugtökunum stór og lítill bekkur og skóli, í Asíu hefur hún t.d. allt aðra merkingu en á Norðurlöndum.

Per Kjeldsen, sem er í forsvari fyrir „den pædagogiske tænketank Sophia“ mótmælir ákvörðunum menntayfirvalda og vísar m.a. til þess að þegar verið sé að meta gæði skóla og bekkja sé einvörðungu verið að meta það sem auðvelt sé að mæla, aðrir þættir sem erfitt sé að mæla s.s. líðan nemenda og álag á kennara séu látnir sitja hjá. Hann vísar einnig til þess að bæði kennarar og foreldrar taki litla bekki og skóla fram yfir stóra og það þurfi að taka tillit til óska þeirra.

Niels Egelund yfirmaður Danmarks Pædagogiske Universitet varar aftur á móti við þeirri goðsögn að litlir bekkir og litlir skólar séu betri. Hann bendir á að einelti sé t.d. ekki háð stærð skóla eða bekkja. Egelund telur að það sé ekki til neitt sem heitir rétt bekkjarstærð þar sé svo margt sem hafi áhrif ekki síst viðfangsefni kennslunnar. Í sumum tilvikum geti nemendahópurinn auðveldlega verði stærri en 28 en í öðrum tilvikum getur 12 nemenda hópur verið of stór. Hann bendir á mikilvægi bekkja sem félagseininga en með það í huga telur hann að 25 nemenda bekkur sé betri en 20 nemenda bekkur og miklu betri en bekkur með aðeins 15 nemendum. Í 25 nemenda bekk sé auðveldara fyrir alla nemendur að eignast vini auk þess sé sú bekkjarstærð faglega betri en einnig fjárhagslega hagkvæmari.

Egelund leggur til að fyrstu fjögur árin séu bekkir og skólar hafðir minni, eða 20 nemendur í fyrsta bekk og 24 nemendur að hámarki í 2. – 4. bekk, eftir það sé heppilegra að stækka bæði skóla og bekki.

Bretar hafa líka áhyggjur af stærðinni og vísa til alls þess fjármagns sem þeir hafa dælt í skólana sína án þess að ná sama árangri og Asíulöndin sem hafa bæði stærri skóla og bekki. En 30 nemenda bekkir eru algengir í Bretlandi.

Í íslenskum lögum er ekkert kveðið á um stærðir bekkja, en samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar er meðalstærð bekkja í Reykjavík á þessu skólaári 20, 5 nemendur. En taka verður tilliti til þess að hér eru færri sérskólar en í nágrannalöndunum og því er oft meiri munur á námsgetu nemenda innan bekkja. Skólarnir okkar eru litlir miðað við það sem almennt gerist og afar fátítt að þeir séu með fleiri en 600 nemendur.

Mér finnast þessar umræður áhugaverðar m.a. vegna þess að þar er tekist á við eina af mörgum goðsögnunum um skólann. Það er auðvitað ekki ásættanlegt ef þróun skólastarfs byggir á illa rökstuddum fullyrðingum. Allir kennarar vita að það er almennt ekki stærð bekkja og skóla sem hefur úrslitaáhrfi á gæði skólastarfs þó stórir bekkir geri vissulega oft meiri kröfur til bæði nemenda og kennara, en það þarf ekki alltaf að vera svo. Niðurstöður stórra rannsókna sýna að það er fyrst og fremst kennarinn sem sker úr um gæði skólastarfsins og árangur nemenda. Þannig er enn einusinni staðfest hversu þungt starf kennarans vegur. Meira um það síðar.

Heimildir

http://www.information.dk/241310

http://www.kristeligt-dagblad.dk/artikel/265713:Danmark–Skoleklassernes-stoerrelse-er-en-kamp-om-mere-end-laering

http://www.economist.com/node/21547854

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s