Fjölmiðlar og einelti í skólum

Undanfarin ár hafa fjölmiðlar reglulega beint athyglinni að einelti í skólum enda er fátt jafn óásættanlegt og barn sem býr  við ótta, útilokun, niðurlægingu eða meiðingar  í skólanum sínum.  Þegar umræðan stuðlar að auknum skilningi og leiðum til lausna ber  að fagna henni því áhrif eineltis geta verið skelfileg. En stundum hefur umræðan tilhneigingu til að einkennasta af miklum alhæfingum. Gefið er í skyn að það sé einfalt mál að leysa einelti, allt sem til þurfi sé að starfsfólk grunnskólana opni augun, taki sig saman í andlitinu og banni þetta bara. Mikið væri gott ef svo væri. Önnur villigata sem umræðan rambar stundum inn á er sú að einelti sé bundið við grunnskóla. Stundum mætti jafnvel halda að grunnskólarnir búi til einelti. En er það nú raunin?

Eineltismál eru ekki alltaf auðleyst

Staðreyndin er sú að eineltismál geta verið afar flókin. Oft halda foreldrar því fram að barn þeirra búi  við langvarandi einelti í skólanum en að skólinn geri ekkert til að stöðva það. Það er ekki erfitt að skilja vanlíðan foreldra sem dag eftir dag heyra barn sitt lýsa því hvernig aðrir nemendur kvelja það með meinlegum athugasemdum, útilokun eða líkamlegum meiðingum án þess að starfsfólk skólans aðhafist neitt. Það vill enginn vera í sporum þessara foreldra, hvað þá síður barna. Á sama tíma er ekki ólíklegt að skólinn sé að leggja sig fram um að stöðva eineltið, en því miður er margt sem getur hindrað farsæla lausn í eineltismálum.

Meðal þess sem getur gert skólunum erfitt fyrir við lausn eineltismála er að stór hluti samskipta nemenda á sér stað utan skólans m.a. á netinu. Þar eru áhrif skólans takmörkuð og forsenda þess að hægt sé að leysa þessi mál er samstaða allra viðkomandi foreldra og skóla en ekki síst nemendanna sjálfra.

Oft hef ég heyrt kennara lýsa djúpum áhyggjum af því hvað það geti verið erfitt að leysa einelti í nemendahópnum.  Þar er margt sem hefur áhrif. Í fyrsta lagi eru eineltismál ekki alltaf augljós, það á ekki síst við þegar um stelpur er að ræða. Einelti meðal stelpna hefur tilhneigingu til að taka á sig aðra mynd en dæmigert einelti meðal drengja. Stelpueineltið einkennist oftar af baktali, augngotum og höfnun og á sér ósjaldan stað á samskiptasíðum netsins. Jafnvel þótt fullorðna fólkið í skólanum og heima skynji vanda í samskiptum stelpnanna á það oft erfitt með að átta sig á mynstrinu, ekki síst vegna þess að stelpurnar eiga það stundum til að skipta um hlutverk innan hópsins. Þegar svo kennari ræðir það við foreldra stelpu að dóttir þeirra sé líklega þátttakandi í einelti gegn annarri stelpu getur það virst sem alger fjarstæða í hugum foreldranna sem hafa skömmu áður upplifað félagslega höfnun og vanlíðan eigin dóttur. Loksins þegar hún er orðin hluti af hópnum fer kennarinn að saka hana um þátttöku í einelti! Er furða að sumir foreldrar hafni fullyrðingum kennarans?

Stundum felst vandinn í því að kennarinn og  foreldrar hafa mjög ólík  gildi og viðmið. Um daginn heyrði ég unga metnaðarfulla kennslukonu segja frá því þegar hún hringdi í föður drengs sem með ítrekuðum niðurlægjandi athugasemdum hafði grætt skólabróður sinn.  Eftir að hafa lýst aðstæðum fyrir föðurnum fékk hún viðbrögð sem komu henni svo í opna skjöldu að hún varð orðlaus. Svar föðurins var ”Grow som balls”. Þar með var samtalinu lokið að hans hálfu. Það getur reynst þrautin þyngri fyrir kennarann að hafa áhrif á andfélagslega hegðun  barns sem elst upp við gildi frumskógarins. Og ekki hefur hann aðstæður til að ala foreldrana upp.

Stundum gerist það að skólinn og foreldrar geta ekki orðið ásátt um grunninn að vanlíðan barns. Foreldrarnir halda því fram að barn þeirra verði fyrir einelti af hálfu tiltekins nemanda.  Skólinn notar sínar aðferðir t.d. viðtöl og tengslakannanir til að greina ástandið og kemst jafnvel að þeirri niðurstöðu að einelti sé ekki raunin. Ef skólinn gerir þau mistök að afgreiða málið með því að tilkynna foreldrum að ekki séu um einelti að ræða, punktur. Þá er ekki við öðru að búast en kvíði foreldranna haldi áfram að aukast. Það er ekki nóg með að barni þeirra líði illa í skólanum heldur missa þeir líka traustið til kennarans/ skólans og það finnur barnið þeirra.

Margir kennarar kannast við hvað það getur reynst flókið þegar hluti nemenda hafnar samskiptum við einn félaga sinn, sem af einhverjum ástæðum hefur tileiknað sér óæskilega hegðun. Stundum eru þessir nemendur jafnvel studdir af foreldrum sínum; ”Mamma vill ekki að ég leiki við hann/hana af því að hann/hún lætur alltaf svo illa”. En félagsleg höfnun er einmitt ein birtingamynd eineltis.

Af augljósum ástæðum verður reiði foreldra í garð nemanda, sem leggja barn þeirra í einelti, oft svo mikil að þeir sjá þá lausn eina að viðkomandi nemandi verði látinn fara úr bekknum eða jafnvel skólanum.  Stundum styðja aðrir foreldrar þessa kröfu. Kennarinn / skólinn hefur aftur á móti skyldur til að gæta hagsmuna allra nemenda sinna, líka þeirra sem hafa brotið skólareglurnar. Skólinn hefur ekki lagalega heimild til að vísa nemenda úr bekk eða skóla nema öll önnur úrræði hafi brugðist. Þessi staða getur gert kennaranum mjög erfitt fyrir og það getur reynst honum vandasamt  að viðhalda trausti allra foreldranna sem hefur afar slæm áhrif á samskipti  nemendanna. Enda þótt ekki megi reka nemanda úr skóla þarf vissulega að tryggja að aðrir nemendur búi við öryggi.

Því miður getur það líka gerst að skólinn stendur ekki rétt að málum en það getur leitt til þess að erfitt  reynist að finna ásættanlega lausn. Stundum er það vegna þess að skólanum/kennaranum hefur ekki lánast að ávinna sér traust foreldranna og þegar það skortir er borin von um árangursríkt samstarf og gagnkvæma virðingu sem er forsenda þess að hægt sé að leysa erfið eineltismál. Einnig getur skortur á upplýsingum hindrað framgang lausna, ef viðkomandi foreldrar telja sig ekki fá fullnægjandi upplýsingar um aðgerðir og árangur er ekki ólíklegt að þeir verði tortryggnir. Ef skólinn/ kennarar hafa ekki skýra ferla og skilgreinda ábyrgð þegar  grunur vaknar um eineltismál er ekki við því að búast að foreldrar treysti skólanum en jafnframt  þarf skólinn/ kennarinn að vera tilbúinn til að aðlaga ferlana að einstökum málum og þörfum foreldra eftir því sem hægt er. Því staðreyndin er sú að hvert mál er einstakt. Eitt af því versta sem skólinn gerir er að taka ekki ábendingar og athugasemdir foreldra eða annarra alvarlega og reyna jafnvel að fullyrða  að allt sé í besta lagi án þess að kanna málið til hlítar.  Það má aldrei bregðast  að allt ferli eineltismáls sé skráð og einnig ákvarðanir sem teknar eru á fundum foreldra og skóla. Þegar skólanum  og foreldrum auðnast ekki að leiða mál til lykta má ekki dragast að leita aðstoðar hjá viðkomandi skólakrifstofu /þjónustumiðstöð.

Ég hef hér nefnt nokkur dæmi sem lýsa því hvað eineltismál geta verið flókin úrlausnar og  hvað það er mikil einföldun að halda því fram að það þurfi bara að fara í málin og stoppa þau. Nú má alls ekki skilja orð mín svo að skólinn geti ekki tekist á við einelti, síður en svo, þvert á móti er ábyrgð skólans afar mikil.

Líklega geta flestir verið sammála um að helsta hindrunin á lausn eineltismála sé skortur á samstarfi og gagnkvæmu trausti fullorðna fólksins en ekki síst á samræmingu gilda. Þetta eru þættir sem verða ekki til að sjálfu sér, þá þarf að byggja upp áður en vandinn verður til.

Áður en við eignum skólunum eineltið og dæmum þá ættum við að skoða nánar hvar eineltið á upptök sín og hvort það sé bundið við börn og grunnskólann.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s