Geta hryðjuverkin  haft áhrif á börn og skólastarf?

ParisFyrir allmörgum árum síðan var stúlka í bekk hjá mér sem neitaði ítrekað að sitja við hliðina á einni bekkjarsystur sinni og ef þeirri síðarnefndu varð það á að setjast við hlið hennar stóð hún alltaf upp og færði sig. Skýringin sem stúlkan gaf mér var að hún vildi ekki sitja hjá brúnum krakka. Þegar ég tók þetta upp í samtali við foreldra hennar, í því skyni að þau upplýstu hana og leiðbeindu, komu þau mér algerlega í opna skjöldu með því að svara að þau virtu fullkomlega þá skoðun dóttur sinnar að vilja ekki sitja hjá þeldökku barni.  Kannski var það barnaskapur af mér að átta mig ekki á því að væru tengsl milli viðhorfa barnsins og foreldranna því börn tileinka sér að sjálfsögðu þau viðhorf sem þau alast upp við. Flestir foreldrar eru gott fólk sem vill vel en það er ekki auðvelt að vera foreldri í dag. Jafnvel þó maður ætli sér að ala upp góða einstaklinga sem bera virðingu fyrir meðbræðrum sínum þá gæti reynst erfitt að láta ekki voðaverkin í París hafa áhrif á viðhorf sín. Hætt er við því að þeir sem tengja þessa viðbjóðslegu glæpi þjóðernum eða trúarbrögðum muni fyllast andúð gagnvart innflytjendum og þau viðhorf ná einnig til barna þeirra. Það yrði afar ósanngjarnt ef flóttamenn og almennir múslimar yrðu látnir gjalda þessara hryðjuverka, þar sem það eru einmitt svona ógnir sem flóttafólkið er að flýja og þeir sem þekkja múslima vita að þeir eru ekki síður slegnir yfir þessu en aðrir. Hér er mikilvægt að við verðum öll á varðbergi, foreldrar og kennarar og látum ekki fordómana ná tökum á okkur, því fordómar hafa alltaf leitt illt af sér.

Svo lengi sem menn muna hafa fordómar af öllum toga verið ein megin orsök ofbeldis. Þessir fordómar byggja oftast á hugmyndinni um „okkur og hina“. „Við“ sem teljum okkur hafa ákveðin réttindi, vera af réttum uppruna, með rétta trú eða skoðanir, með rétt útlit, af betri stétt, af réttu kynferði eða með rétta kynhneigð, svo eitthvað sé nefnt, höfum beitt „hina“ ofbeldi af öllum toga.  Ofbeldið beinst ýmist að einstaklingum eða hópum en líka gegn heilum þjóðum. Það virðist ósjaldan vera óttinn sem liggur að baki fordómunum, óttinn við að missa eitthvað sem maður telur mikilvægt svo sem réttindi eða stöðugleika. Þeir sem vilja vekja fordóma nýta þess vegna oft óttann til að fá fólk til að trúa því að þeim standi ógn af einhverjum.  Eitt þekktasta dæmi sögunnar um slíkt eru ofsóknir gegn Gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni (Guðrún Kristinsdóttir og Nanna Kristín Christiansen, 2014)

Vandinn er sá að það virðist flóknara en ætla mætti að eyða fordómum og öfgahyggju með fræðslu og upplýsingum, séu þeir á annað borð búnir að festa rætur í hugum fólks, af því að þeir sem eru haldnir þessum fordómum byggja skoðanir sínar jafnan á tilfinningum en ekki vitsmunalegum rökum.

Menntastefna Evrópuráðsins var sett í lok síðari heimsstyrjaldar en megin markmið hennar er að koma í veg fyrir að sá hryllingur sem styrjöldin var endurtæki sig. Talið er að þau markmið náist best með því að skólinn ástundi vinnubrögð sem miða að því að vinna gegn fordómum með eflingu jafnréttis- og lýðræðisvitundar nemenda með markvissum samræðum og samvinnuverkefnum í öllum námsgreinum þar sem allar raddir fá að heyrast.

Ef við leyfum voðaverkunum í París að vekja andúð okkar gegn innflytjendum hjálpum við þeim sem stóðu að baki þeim að ná markmiðum sínum. Fordæmum glæpi en tileinkum okkur jafnframt viðhorf  Martin Luther King Jr. sem birtast í þessum orðum: Darkness cannot drive out darkness; only light can do that. Hate cannot drive out hate, only love can do that.  

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s