Það verður einhver annar að kenna þessu barni

diversityÞað verður einhver annar að kenna þessu barni, ég kann það ekki, og hef alveg nóg með minn bekk þar eru margir nemendur með allskonar sérþarfir“.  Þetta eru orð kennara, og ekki í fyrsta skipti og örugglega ekki í það síðasta sem kennarar lýsa svipuðum skoðunum.

Grunnskólinn á að vera án aðgreiningar, þar eiga allir nemendur að fá nám við hæfi sbr. 17. gr. laga um grunnskóla nr. 91/ 2008, en er það raunin og ef ekki, hvað kemur þá í veg fyrir það? Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá hefur heimurinn breyst, hann breytist hratt og verður aldrei aftur eins og hann var. Skólinn eins og við þekkjum hann var búinn til fyrir allt annarskonar samfélag og fæstir starfandi kennarar lærðu að kenna í samfélagi dagsins í dag.  Það er t.d. mikilvæg staðreynd að við erum orðin fjölmenningarsamfélag sem gerir ekki aðeins kröfur um að þeir, sem kjósa að setjast að í þessu landi, læri að aðlagast íslenskri menningu, heldur þurfum við, sem fyrir erum, einnig að tileinka okkur viðhorf og gildi fjölmenningarsamfélagsins.

Ég var svo heppin í síðustu viku að fá að sitja fund með einum virtasta fræðimanni heims í fjölmenningarlegum kennsluháttum, Jim Cummins. Cummins leggur gríðarlega áherslu á að skólar og foreldrar leggi sig fram um að hjálpa börnum, sem eru að læra annað tungumál, að viðhalda móðurmáli sínu og að skólanum verði kappsmál að þessir nemendur útskrifist tvítyngdir. Jafnvel þó skólinn hafi engin tækifæri til að kenna barninu móðurmál sitt þá eru virðing og áhugi fyrir heimamenningu barnsins og móðurmáli þess afar mikilvæg. Til að líða vel og ná árangri þurfa nemendur með annað móðurmál að upplifa sig velkomna í almennan bekk og skynja að þátttaka þeirra skiptir máli jafnvel þó þeir geti ekki tjáð sig á nýja málinu. Til að læra nýtt tungumál þarf einstaklingurinn að dvelja í málumhverfinu og finna hjá sér þörf fyrir að vera hluti af hópnum sem fyrir er. Fram kom hjá Cummins að börn innflytjenda, sem hafa lent í mjög erfiðum aðstæðum s.s. stríðsátökum, þurfi oft að hefja skólagöngu í nýu landi í sérstökum deildum, en þegar vel er að staðið farnist börnum almennt best þegar þau fara strax inn í hefðbundna bekki/deildir. Hann lagði einnig áherslu á að það mætti aldrei vera á ábyrgð eins eða tveggja kennara að kenna nýja málið, það ætti að vera viðurkennt hlutverk allra í skólanum. Sem dæmi nefndi hann að náttúrufræðikennarinn ætti ekki gera kröfur um að nemandinn væri búinn að læra nauðsynlegan grunn í íslensku áður en hann kæmi í tíma til hans heldur þyrfti náttúrufræðikennarinn að breyta kennslu sinni þannig að hún hæfði þörfum allra nemendanna.

Þó lög, reglugerðir og stefnur sveitarfélaga breyti áherslum í því skyni að koma betur til móts við breytt samfélag og ný viðhorf þá sýnir reynslan og rannsóknir okkur að það eitt nægir ekki. En ein af megin niðurstöðum rannsóknar Ingvars Sigurgeirssonar, Amalíu Björnsdóttur, Gunnhildar Óskarsdóttur og Kristínar Jónsdóttur (2014) á kennsluháttum í grunnskólum er að þær leiða vel í ljós hversu mikið ósamræmi er milli stefnumörkunar stjórnvalda og veruleikans inni í skólastofunum (bls. 154). Sama rannsókn sýnir einnig að stutt hafi miðað í átt að námi við hæfi hvers og eins. Þetta er í samræmi við niðurstöður Birnu Sigurjónsdóttur (2015)  sem birtist í Netlu, en þar segir m.a. að greining á kennsluháttum í rúmlega þúsund kennslustundum í grunnskólum í Reykjavík sýni að langalgengast er að kennarinn sé  í aðalhlutverki sem fræðari og stýrir námi nemenda að því marki að sömu lausnir komi fram hjá öllum nemendum.

Eftir að hafa sjálf starfað við kennslu í grunnskólum í meira en tvo áratugi get ég fullyrt að það er hvorki leti né fáviska kennara sem liggur hér að baki, þvert á móti. Það er miklu fremur eins og það hafi verið hlaupið yfir einhvern mikilvægan lið á leið að markmiðinu. Líkt og fram hefur komið þá nægir engan veginn að segja kennurum að þeir eigi að breyta starfi sínu og ætlast svo til að þeir verði á skömmum tíma færir um að kenna öllum nemendum hvort sem kunna íslensku eða ekki, hafa alvarlegar fatlanir, geðraskanir, ADHD eða aðrar sérþarfir.  En hvað er þá til ráða?  Hið almenna viðhorf hefur verið að símenntun kennara sé lausnin. Það urðu því nokkur vonbrigði að lesa bandaríska skýrslu TNTP þar sem fram kemur að miklum fjármunum hafi verið varið til símenntunar kennara í því skyni að breyta kennsluháttum, en að það skili afar takmörkuðum árangri. Mér virðist ein af megin niðurstöðum skýrslunnar vera að forsenda breytinga í skólastarfi sé að kennararnir sjálfir sjái þörf fyrir hana. Fram kemur að kennararnir eru oftast sáttir við eigin frammistöðu, svipað  kemur í ljós í rannsókn Ingvar Sigurgeirssonar o.fl. (2014) og þar af leiðandi sjá þeir ekki þörf fyrir breyta kennslu sinni að neinu marki. Lykillinn að árangri er að mati skýrsluhöfunda að gefa kennurum tækifæri til að greina sína eigin styrkleika og veikleika. Þetta samræmist að miklu leyti því sem fram kom í erindi nýsjálenska fræðimannsins Viviane Robinson, sem hún flutti fyrr í þessum mánuði á vegum Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs, en þar sagði hún m.a. að forsendur breytinga í skólastarfi væru að þeir sem stýra breytingunum skilji hvers vegna kennarar kenni eins og þeir gera.  Samkvæmt þessu þurfa þeir sem leiða breytingarnar þ.á.m. stjórnendur skólanna, að vinna að breytingunum með kennurunum og í samræmi við forsendur þeirra.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s