Andstæðan við þögn þarf ekki að vera hávaði

NámsfélagarEftir umfjöllun mína um þögla, iðjusama bekkinn hitti ég kennara sem var ekki alveg sáttur við skrif mín og benti mér á hversu mikils virði þögnin væri og hvað hún gerði nemendum gott.  Ekki ætla ég að vanmeta þögnina hún er gulls ígildi, en það er samræðan og samvinnan einnig. Þetta er því ekki spurningin um annað hvort eða heldur bæði og.  Andstæðan við þögn þarf ekki að vera hávaði.

Það ætti að vera skylda hvers kennara að hjálpa öllum nemendum sínum að öðlast rödd til að tjá skoðanir sínar og tilfinningar á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og kennarar eru í vaxandi mæli orðnir meðvitaðri um mikilvægi þess. Þeir þurfa að skapa bekkjarbrag sem einkennist af virðingu og umburðarlyndi svo allir nemendur öðlist nægilegt öryggi til þess að þora að tjá sig, sama hver þau eru (Kottler og Kottler,2007).

Samkvæmt minni eigin reynslu einkennast  samræður í bekk oftar en ekki að því að það eru kennarinn og einn og einn nemandi  sem ræða saman, meðan hinir hlusta og tjá sig jafnvel aldrei. Oft veit kennarinn svarið og stýrir umræðunni. Það er miklu sjaldgæfara að raunverulegar samræður eigi sér stað milli nemendanna, samræður sem miða að því að komast að sameiginlegri niðurstöðu um tiltekið efni. En það eru til aðferðir sem stuðla að virkum samræðum og samvinnu milli nemenda.

Hópvinna

Hópvinna hefur lengi verið vinsæl kennsluaðferð þar sem nokkrir nemendur vinna saman, samkvæmt ákveðum reglum, að lausn tiltekins vandamáls. Lesa má um ýmsar þessara aðferða á Kennsluaðferðarvefnum s.s. Samvinnunám, Landnámsaðferðina og  Söguaðferðina.

Námsfélagar

Önnur þekkt aðferð kallast Námsfélagar eða Learnig partners á ensku. Tveir og tveir nemendur vinna saman að tilteknu verkefni í afmarkaðan tíma t.d. að safna orðum til að nota í það ritunarverkefni sem liggur fyrir. Það geta t.d. verið orð sem lýsa veðurfari eða ákveðnum tilfinningum. Þegar þeir hafa búið til orðabankinn styðjast þeir við hann þegar þeir rita hvor sína sögu. Stundum er orðum allra námsfélagana í bekknum safnað saman á einn námsvegg svo allir hafi aðgang að þeim. Það blasir við hvað þessi aðferð getur verið gagnleg þeim sem hafa takmarkaðan orðaforða og víst er að enginn tapar.  Einnig vinna námsfélagar saman að lausn stærðfræðiverkefna,  semja og flytja „sjónvarpsfrétt“ í samræmi við tiltekin markmið  svo fátt eitt sé nefnt.  Námsfélögum eru kennd nauðsynleg vinnubrögð sem einkenna þessa aðferð m.a. að skiptast á að tjá sig og virða skoðanir og vilja hvers annars. Yfirleitt er tíminn sem þeir hafa til samvinnu fremur knappur sem tryggir að þeir halda sig að verki. Sjálf hef ég fylgst með 4 – 5 ára börnum vinna sem námsfélagar með góðum árangri.

Einn, tveir, deila

Hér nefni ég líka einfalda aðferð sem almennt gengur undir heitinu: Einn, tveir, deila. Aðferðin gengur út á það að kennarinn biður nemendur um að ígrunda tiltekið efni í tengslum við námsefnið. Þeir fá afmarkaðan tíma, segjum 2 mín. Kennarinn gæti t.d. beðið nemendur um að hugsa um það, hver fyrir sig, hvað tillitssemi þýðir. Þegar tvær mínútur eru liðnar biður hann tvo og tvo nemendur um að snúa sér hver að öðrum og segja frá niðurstöðum sínum. Þeir fá samtals 8 mínútur báðir þurfa að fá að tjá sig og hafa tækifæri til að spyrja, bregðast við spurningum og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Næsta skref er að hvetja námsfélagana til að deilda niðurstöðum sínum með öllum hópnum. Stundum á það við að draga fram sameiginlega niðurstöðu.

Bekkjafundir

Bandarísi sálfræðingurinn William Glasser er almennt talinn vera einn helsti upphafsmaður bekkjarfunda, en hann setti fram hugmyndir sínar í lok 7. áratugarins. Glasser taldi bekkjafundi nauðsynlega í því skyni að hjálpa nemendum að mæta grunnþörfum sínum. Hann leit því á fundina sem einskonar meðferðarúrræði.  Ýmsir hafa haldið áfram að þróa hugmyndir um bekkjarundir þar á meðal Olweus en í skólum sem vinna samkvæmt Olweusaráætluninni eru bekkjafundir fastir liðir á stundaskránni þar sem horft er til forvarnagildis þeirra. Ingileif Ástvaldsdóttir, skólastjóri Þelamerkurskóla er sérfræðingur í bekkjarfundum,   Hér má lesa glærur úr fyrirlestri hennar. PBS skólar hafa einnig lagt áherslu á bekkjarfundi líkt og sjá má á vef Þjónustumiðstöðvar Breiðholts

Bekkjafundir geta verið mikilvæg leið til að efla nemendalýðræði í skólum en varasamt er að líta svo á að hægt sé að afgreiða alla samræðu nemenda á bekkjarfundum einum saman. Samræða og samvinna þarf að vera samofin öllu skólastarfi.

NKC

Heimild:

Kottler og Kottler. 2007. Counseling skills for teachers. California: Crowin Press.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s