Vel menntaðir kennarar í framtíðinni

school_shutterstockÞað er mikið rætt um lengingu kennaranáms þessa dagana. Sumir telja að lengingin sé ein helsta ástæða þess að dregið hefur úr aðsókn í kennaranám. Einhverjum dettur jafnvel í hug að lausnin við því sé því að stytta námið aftur og þá muni fólk flykkjast í námið.

Að mínu mati er það skammsýni. Ef lenging námsins væri eina skýringin á minni aðsókn í kennaranám, er ekki ólíklegt að smám saman fari nemendum að fjölga aftur, þegar breytingin verður hætt að vera nýjung. Það hefur sýnt sig að ef fólk langar að læra til ákveðinna starfa lætur það fimm ára nám ekki stöðva sig, sbr. læknisfræði og lögfræði svo dæmi sé tekið.

Meiri menntun kennara í dag en fyrir 20 árum er sjálfsögð því samfélagið hefur breyst,menntun orðið almennari  og það væru undarleg skilaboð til nemenda ef  talið er eðlilegt að menntunarstig kennara sé lágt. Þeir sem vinna við að mennta aðra þurfa að vera góðar fyrirmyndir, m.a. um mikilvægi menntunar. Hins vegar er kennarnám að sjálfsögðu ekki hafið yfir gagnrýni og það þarf að vera aðlaðandi og markvisst veganesti fyrir verðandi kennara. En það dugir ekki eitt og sér.

Mitt mat er að það séu fleiri þættir sem hafa áhrif á að ungt fólk sér ekki fyrir sér að starfa við kennslu í framtíðinni.  Sumt blasir við annað ekki.

Starfskjör kennara eru eitt af því sem blasir við öllum, laun þeirra eru of lág miðað við menntunarkröfur og þá ábyrgð sem felst í starfinu. Þau laða ungt fólk ekki til að sækja sér menntun á þessum vettvangi.  Launin ein og sér draga samt líklega ekki úr löngun ungs fólks til að gerast kennarar. Það þarf að hækka launin en það er ólíklegt að það dugi eingöngu. Fólk velur sér ekki nema að litlu leyti starfsvettvang vegna mögulegra launa.

Hluti af starfskjörum kennara er starfsumhverfi þeirra, og hluti af starfsumhverfinu er það andrúmsloft sem ríkir í kringum starfið. Andrúmsloftið verður til úr ýmsu t.d. umtali um kennara og skólastarf á opinberum vettvangi.  Það umtal  mótar að hluta sjálfsmynd og  sjálfsvitund stéttarinnar sem hefur svo áhrif á andrúmsloftið sem ríkir í kringum hana. Að mínu mati er þessum þætti mjög ábótavant hjá okkur ( má vel vera að þetta sé vandamál víðar).  Mín tilfining er sú að helst sé fjalla um kennarastarfið á neikvæðan hátt í fjölmiðlum. Í bókmenntum, auglýsingum og kvikmyndum eru kennarar mjög oft sýndir sem grámyglulegir, döngunarlitlir  kallar eða strangar gribbur með allt á hornum sér. Það eru ekki fyrirmyndir sem ungt fólk sækist eftir að líkjast. Í umræðunni eru líka oft dregin fram atriði sem eru hluti af starfskjörum kennara og þau notuð gegn þeim, sumt af því sem þar er dregið fram er byggt á gömlum starfskjörum sem ekki eru lengur við líði. Þar á ég við umræðuna um að kennarar séu alltaf í fríi og fólk fari helst í starfið af þremur ástæðum, júní, júlí og ágúst. Það  má vel vera að svo hafi verið einu sinni en það hefur breyst.

Kennarar sjálfir verða einnig að skynja ábyrgð sína á því andrúmslofti sem ríkir í kringum starfið þeirra. Það hvernig þeir tala um starfið sitt á opinberum vettvangi hefur áhrif á það hversu aðlaðandi starfið er í augum ungs fólks. Það er mikilvægt að kvarta ekki eingöngu yfir starfinu í fjölmiðlum og týna til allt það erfiða sem það felur í sér.  Það eykur ekki skilning neins á starfinu né laðar ungt fólk að því. Ungt fólk þarf á sterkum fyrirmyndum að halda og kennarar  þurfa að vera sýnilegir sem slíkar fyrirmyndir innan sem utan   skólastofunnar.

Til að laða ungt fólk að kennarastarfinu þarf að vinna markvisst á öllum þessum vígstöðvum.  Kennaranámið þarf að vera aðlaðandi, laun kennara  að hækka og andrúmsloftið í kringum kennarastarfið að breytast.

Það er ekki að nóg laga einn þátt , þetta hangir saman. Að mínu mati er það heldur ekki þannig að  eitt þurfi að gerast fyrst og svo komi hitt á eftir. Ekkert af  þessu næst fram nema með sameiginlegu átaki allra sem málið varðar um að vinna jafnhlið að þessum þáttum. Hagsmunaðailar þurfa að vera markvissir og skipulagðir.  Þetta er samfélagslegt verkefni sem margir bera ábyrgð á. Mikið er í húfi því vel menntaðir kennarar sem taka þátt í að móta samfélagið með stolti eru nauðsynleg grunnstoð hvers samfélags. Gæði skólastarfs  ráðast  að stórum hluta af  kennurum. Með því að vantreysta þeim   og halda þeim á lágum launum grefur samfélagið undan einni af sínum grunnstoðum og getur því sjálfu sér um kennt ef ungt fólk sækir ekki í kennarastörfin.

EK

2 athugasemdir við “Vel menntaðir kennarar í framtíðinni

  1. Það eru ekki allir fæddir sem kennarar. Af hverju má ekki kennari eftir 4.ára nám sjá hvort þessi grein henti honum? Ég sjálf gamla konan þekki fjölmarga sem fóru í ,,kennarann“ en hann hentaði þeim ekki. Þau fengu samt góð störf út á menntunina. Fjögur ár í kennarann og síðan prufan og svo master eftir eins árs reynslu!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s