Ætli flestir kennarar eigi það ekki sammerkt að finna til ánægju þegar þeir líta yfir nemendahópinn sinn og sjá að allir nemendurnir eru önnum kafnir við að sinna verkefnum sínum. Ríflega tuttugu ólíkir nemendur sem grúfa sig yfir verkefnin sín í heila kennslustund, lágvært pískur þegar þeir ræða saman en annars nær algert hljóð. Er þetta ekki lýsing á bekk þar sem góður kennari er við stjórnvölinn? Það fannst a.m.k. mömmunni sem ég hitti um daginn og fannst að sonur hennar hefði nú aldeilis dottið í lukkupottinn þegar hann fékk nýjan kennara: „Það heyrist bara ekki múkk í krökkunum og allir eru að vinna allan tímann“. Þegar ég spurði mömmuna að því hvort börnin lærðu eitthvað var minna um svör.
Erlendur kunningi minn sagðist hafa veitt því athygli að íslenskir kennarar virðast oft leggja meiri áherslu á iðni nemenda en að þeir bæti við þekkingu sína og færni í kennslustundinni. Ef þetta er rétt má spyrja sig að því hvort einhver tengsl séu á milli þessa og þeirrar staðreyndar að hér á landi er 20% minni framleiðni vinnuafls en í helstu nágrannalöndum okkar. Getur verið að aðdáun á vinnusemi sé menningarlegt fyrirbæri og að afraksturinn skipti minna máli?
Ef nemandi reiknar 50 dæmi í kennslustund eða vinnur önnur verkefni fyrirhafnarlaust má þá ekki leiða að því líkum að verkefnið sé of auðvelt, að hann sé ekki að bæta við þekkingu sína eða færni og tíma hans því illa varið? Ætti það ekki að vera makmið kennslustundarinnar að nemendur viti eða kunni meira í dag en í gær, frekar en að þeir hafi klárað svo eða svo margar blaðsíður í vinnubókinni?
NKC