Þegar fólk tekur ákvörðun um að gerast kennari geta legið margar ólíkar ástæður þar að baki. Einhverjir sem hefja kennaranám gera það af því þá langar til að hafa áhrif, aðrir gera það vegna þess að þeir telja að þeim henti vel að vinna með börnum og ungu fólki og enn aðrir velja kennslu vegna fyrirmynda sem þeir hafa haft einhvern tíma á lífsleiðinni. Það er mikilvægt að vel hæft fólk velji sér kennslu sem starf og því er nauðsynlegt að byggja upp jákvæða ímynd gagnvart starfi kennara og velja inn á þann starfsvettvang fólk sem gefur starfinu þann ljóma sem þarf til að vel hæft fólk sækist eftir að verða kennarar.
Þegar kennarar hefja störf komast þeir fljótt að því að skólastarf þarf helst að taka stöðugum breytingum til að halda í við þær samfélags breytingar sem ávallt ganga yfir. Hætt er við að skólar staðni ef þar vinnur ekki faglega sterkt og skapandi fólk sem ræður vel við þau verkefni sem þeim er trúað fyrir. Þess vegna er mikilvægt að vel menntað og hæft fólk sinni kennslu. En það er ekki nóg að ná sér í réttindi í eitt skipti fyrir öll, kennarar þurfa að mennta sig jafnt og þétt alla sína starfsævi til að temja sér nýjungar á sviði menntunar. Kennarar þurfa að vera opnir fyrir nýjungum og fylgjast vel með í sínu fagi, bæði þeirri grein sem þeir kenna og einnig kennsluháttum og t.d. nýjum hugmyndum um hvernig nám á sér stað og hvaða aðferðum er best að beita við ólíkar aðstæður svo fátt eitt sé nefnt.
Kennsla er krefjandi starf og fólk sem sinnir henni þarf að búa yfir fjölbreyttum hæfileikum og hafa víðfeðma þekkingu á mörgum málefnum t.d. þroska barna og unglinga, þeim kennslugreinum sem þeir kenna og þeir þurfa að ráða við að koma þekkingu sinni og hæfni þannig frá sér að aðrir skilji og geti nýtt sér.
Kennarar þurfa að kunna að skapa námsaðstæður sem ýta undir þekkingu, leikni og hæfni nemenda og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um að þeirra skipulag og athafnir hefur áhrif á hvernig nemendum tekst að leysa viðfangsefni sín. Kennsluaðferðir sem beitt er geta ýmist ýtt undir ósjálfstæði nemenda eða skapandi og sjálfstæð vinnubrögð þeirra. Kennarar þurfa einnig að vera meðvitaðir um þau orð sem þeir nota og hvernig setningar þeir segja. Því má segja að kennsla krefjist þess í raun að kennarar stundi stöðuga sjálfsrýni með það að markmiði að bæta sig í starfi.
Kennarar þurfa einnig að búa yfir leiðtogahæfileikum og geta hrifið nemendur með sér , þeir þurfa bæði að geta gert kröfur til nemenda og sýnt þeim samkennd. Samskiptahæfni er kennurum mikilvæg og þeir þurfa að treysta sér til að tala við allskonar fólk og leiðbeina því.
Allir nemendur þurfa að geta treyst því að kennarar séu ávallt með þeirra hag að leiðarljósi. Það er mjög mikilvægt að traust ríki á milli kennara og foreldra, Það er mikilvægt því foreldrar eru helstu bandamenn kennara í því verkefni að búa nemendum árangursríka skólagöngu. Það traust þurfa kennarar að geta byggt markvisst upp.
Af ofangreindu sést að kennsla er skemmtilegt og skapandi starf sem mikilvægt er að sinna með opnum huga svo nemendur fái gott nám við hæfi hverju sinni í síbreytilegum heimi.
EK