Verum stolt af skólanum

kennarastofa„Það eru ótrúlega mörg börn sem líður illa í skólanum“. Og „Skólar í löndunum í kringum okkur eru miklu betri en skólar hér á landi“. Þetta eru dæmi um fullyrðingar um grunnskólann okkar sem birtast í fjölmiðlum og skaprauna mér verulega vegna þess að þetta eru sleggjudómar sem enginn rök eru fyrir auk þess skil ég ekki tilganginn með þeim.

Staðreyndin er sú að langflestum börnum líður vel í skólum og í könnun sem skóla-og frístundasvið Reykjavíkurborgar gerði á síðasta ári kemur m.a. fram að yfir 90% foreldra telja að börnum þeirra líði vel í skólanum. Á  sömu vefsíðu kemur fram að árlegar mælingar sem gerðar eru meðal nemenda sýna að kvíði, vanlíðan og einelti hefur minnkað. Mér finnst ólíklegt að ástandið sé almennt mjög frábrugðið annarsstaðar á landinu. Svo sú fullyrðing að ótrúlega mörgum börnum líði illa í skóla er því hreint og beint röng. Nema þá að hugtakið ótrúlega mörg hafi aðra merkingu en ég á að venjast. Skólarnir okkar eru heldur ekki lélegri en skólar í nágrannalöndum okkar eins og niðurstöður Pisa könnunar 2009 (nýjasta skýrslan) sýnir. Könnunin er lögð er fyrir 15 ára nemendur í 64 löndum og sýnir að einungis nemendur 10 þjóða voru betri í lestri en íslensku nemendurnir. Við erum einnig yfir meðaltali í stærðfræði en þurfum að taka okkur á í náttúrufræði. Ef við á annað borð tökum mark á niðurstöðum Pisa þá er það ekki rétt að skólar í löndunum í kringum okkur séu miklu betri en skólarnir okkar. Þvert á móti þá megum við vera stolt af skólunum okkar, því hann er bara ansi góður. Gleymum því heldur ekki að Pisa könnunin mælir ekki alla þætti t.d. ekki list- og verkgreinar sem íslenskir skólar sinna almennt mjög vel.

Hver er þá tilgangur þeirra sam hamra á því að skólarnir okkar séu svona vonlausir og að ótrúlega mörgum börnum liði þar illa? Halda þeir að það efli nemendur til dáða í náminu og að þeir verði hamingjusamari ef það tekst að sannfæra þá um að skólinn þeirra sé drasl og að það sé nánast eðlilegt að þeim líði illa þar?  Trúa þeir því e.t.v. að kennararnir verði metnaðarfyllri og áhugasamari ef þeim er bara sagt það nægilega oft hvað starf þeirra skilar litlum árangri? Eða kannski að það auki traust foreldra til skólans og leggi grunninn að gagnkvæmri virðingu foreldra og kennara?

Síst ætla ég að gera lítið úr vanlíðan barna og flestir gera sér ljóst að það líður ekki öllum börnum alltaf vel í skólanum og við höfum heldur enga fullvissu fyrir því að öllum börnum líði alltaf vel heima hjá sér. Þetta er auðvitað áhyggjuefni sem við þurfum stöðugt að vera vakandi fyrir og reyna að tryggja að öll börn séu alltaf í öruggu og vinsamlega umhverfi.

Það er vissulega  langt í land með að skólinn okkar verði hafinn yfir alla gagnrýni og vafamál hvort það er yfir höfuðið eftirsóknarvert. Því stöðug og gagnrýnin umræða um skólann er nauðsynleg. Í þeirri umræðu má hinsvegar ekki gleymast að draga líka fram allt það góða starf sem þar fer fram fer í stað þess að beina athyglinni eingöngu að því sem betur mætti fara. Það þarf að vera hægt að treysta því að stórar fullyrðingar séu byggðar á þekkingu og studdar rökum. Íslenski grunnskólinn hefur alla burði til að vera með bestu skólum í heimi og að því marki eigum við stöðugt að stefna. Á þeirri vegferð þurfum við auðvitað að halda með skólanum og vera stolt af vinnustað barna okkar. Það felst meiri hvatning í því en stöðugri gagnrýni.

NKC

3 athugasemdir við “Verum stolt af skólanum

 1. Já, verum stolt. Það er eðli margra barna að kvarta undan skólanum og því líði illa þar, t.d. þegar það nennir ekki að vinna heimavinnu eða hefur dregist afturúr vegna þess að það hefur kannski ekki farið eftir fyrirmælum í tíma/um. Þá er því slengt á skólann. Gjarnan lesa foreldrar ekki aðstæður heldur taka undir með barninu gegn skólanum. Barnið veit, hvar það hefur stuðninginn þótt staðhæfingar séu vafasamar.

 2. Rakst á þessa gömlu grein frá 1984 og ekki hafa kjör kennara batnað á þessum tíma …sorglegt! http://www.ismennt.is/not/svp/greinar/um_laun_althingismanna.htm
  „Fyrir örfáum áratugum settu þingmenn á Alþingi Íslendinga fram launa­kröfu: Að þingmannslaun væru jafnhá kennaralaunum. Þetta var sanngjörn krafa og er það enn. Störf þingmanna og kennara eru um margt lík. Þingmenn hafa svipaðan vinnutíma og kennarar. Þeir hafa álíka langt jólaleyfi, jafnvel lengra, viðlíka langt páskaleyfi, jafnvel lengra, og sumarleyfi þingmanna er svipað sumarleyfum kennara. Starfstími Alþingis er álíka eða heldur styttri en starfstími skóla. Margir þingmenn þurfa að vinna ýmis skyldustörf í þing­hléum. Flestir kennarar þurfa að vinna skyldustörf í skólaleyfum. Sumir kennarar vinna önnur störf í sumarleyfum auk skyldustarfa. Margir þingmenn gera það líka, sinna bústörfum, fara túr og túr á togara, vinna í fyrirtækinu sínu, yrkja ljóð, semja sögur og gefa út. Þingmenn vinna oft frameftir á kvöldin og á helgum dögum á starfstíma þingsins. Kennarar vinna líka heima hjá sér á kvöldin og um helgar og nemendur eða foreldrar hringja jafnvel um nótt.
  Nefna má tvennan eðlismun á þingmennsku og kennslu. Þingmaður þarf sjaldnast að bera jafnmikla ábyrgð á gerðum sínum og kennarinn. Um það eru næg dæmi. Og til þess að geta orðið kennari þarf lágmarksmenntun í fræðigrein auk sérmenntunar til réttinda. Til þess að verða þingmaður þarf enga lág­marksmenntun og ekkert réttindanám, ekkert annað en lágmarksaldur og kjörfylgi.
  Þrátt fyrir þetta er gamla krafan þingmannanna um jöfn laun og söm kjör þingmanna og kennara vel viðunandi. Ekki aðeins grunnlaunin heldur allt: ferðastyrkir, bílastyrkir, húsaleigustyrkir, fæðisstyrkir, dagpeningar, vinnuað­staða, greiðslur fyrir nefndastörf og fundasetur. Þingmenn og kennarar eiga að hafa sömu laun og kjör. Nú má segja að sanna megi hið fornkveðna. Nú eiga ráðamenn að vita við hvað þeir eiga að miða þegar næst verður ákveðið hver laun og kjör kennara verða – og þingmanna. Að vísu er svolítið vafasamt að þingmenn séu í andartakinu tilbúnir að lækka laun sín og rýra kjör til að hljóta það sama og kennarar. Þá verða þeir bara að bjargast við hitt, að hækka kennaralaunin og bæta kjör þeirra.
  Samkvæmt þessu eiga skólastjórar að hafa ráðherralaun og aðstoðar­skólameistarar styrk til fatakaupa svo þeir geti verið almennilega til fara í vinnunni.
  Kennsla er mikilvægt starf og góð menntun er nauðsynleg, ekki bara í merkingarrýrum hátíðarræðum ráðamanna heldur í alvörunni, í raun­veruleikanum. Þess vegna eiga kennarar að hafa há laun og góð kjör.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s