Kennari febrúarmánaðar 2013 er Örlygur Axelsson Félagsgreinakennari við Menntaskólann að Laugarvatni.
Menntun: BA í félagsfræði frá HÍ. Kennsluréttindi frá HÍ. Stunda meistaranám í kennslufræði við sama skóla.
Hugleiðingar um kennarastarfið:
Þegar ég ligg á koddanum á kvöldin verður mér stundum hugsað til kennsluaðferða John Keating í kvikmyndinni Dead Poets Society. Oft kemur upp í hugann atriðið þar sem Keating biður nemendur sína að rífa blaðsíðu úr kennslubók um enskar bókmenntir. Hann segir að kennslubækur séu ekki heilagar og að efnistök þessarar tilteknu blaðsíðu dragi fegurðina úr bókmenntum með flækjum og yfirborðslegri fræðimennsku. Öðrum þræði er kvikmyndin að gagnrýna ákveðna kennsluhætti og viðmót sem ég tel að ekki hafi endilega horfið úr skólum. Kennsluháttum sem byggja á einhliða kennslu, þar sem kennarinn ræður og gerir, á meðan nemandinn fylgir og þiggur. Kennsluháttum þar sem formfesta og ólýðræðisleg samræða við nemendur ræður ríkjum. Kennsluháttum þar sem einkunnir og hugsuninn ,,að ná prófi“ virðist kerfisbundið yfirtaka hugmyndir margra nemenda um tilgang og markmið náms. Kennsluháttum sem virðast ekki virkja og vekja áhugahvöt nemenda – áhugahvöt sem er nauðsynleg til að nemendur finni tilgang til að rannskaka og kanna lífið. Og njóta þess á sama tíma.
Ég er ekki að segja að skólakerfið og kennslushættir séu alltaf og allstaðar rústir einar. Þvert á móti. Víða er fræbært starf í gangi. Ég sé það oft bara í mínum skóla. Ég er heldur ekki að segja að kennarar ættu að henda öllum kennslubókum og einkunnarskölum út um gluggann. Það gengur augljóslega ekki upp. Síst af öllu er ég að gera mér sérstakar vonir um að verða næsti John Keating sem er tolleraður og hylltur af breyttum og bættum nemendum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að lífið er sjaldnast eins magnþrungið og rómantískt og kvikmynd. Aftur á móti deili ég þeirri sýn Keating að stundum vanti einhverja aðra og nýja nálgun í skóla. Jafnt og þétt dregur úr áhuga sumra nemenda og skólarnir að einhverju leyti orðnir tákn fyrir það sem er heftandi og leiðinlegt. Ég trúi því að þetta þurfi ekki að vera svona. Það hlýtur að vera hægt að breyta þessu. Það á meðal annars að vera hlutverk kennarans að þroska með nemendum áhuga á að rannsaka og skilja heiminn og okkur sjálf. Til þess þarf kennarinn að vera í endalausu samtali við sjálfan sig og aðra. Hann þarf að ígrunda eigin markmið og prófa sig áfram með ýmsar aðferðir, virkja nemendur með fjölbreyttum nálgunum, tala og hlusta á nemendur án yfirlætis. En leyfa sér líka að vera áhrifarmikill og nýta sína persónulegu kosti. Ég sem félagsfræðikennari veit að nemendur þurfa að ná tökum á ákveðnum hugtökum, kenningum og aðferðum. Þetta eru fyrst og fremst verkfæri til að skilja og greina heiminn og hafa lítið gildi ef nemendur sjá þetta aðeins fyrir sér sem orð og setningar í glærumpökkum sem þarf að muna til að ,,ná prófi“. Þannig verður kennslan að byggja á virkni nemenda. Að nemendur læri að beita verkfærum sínum og prófi sig áfram. Ég vil geta mælt mér mót við nemendur á miðri leið. Að einhverju leyti í því umhverfi sem þeir þekkja og hafa reynslu af (t.d. nota samfélagsmiðla). En einnig að skólaumhverfið sé sjálfstætt samfélag utan við daglegt líf nemenda. Í þessu ljósi má til dæmis tengja hugtök og kenningar við eitthvað nýtt eða framandi.
Eins og örugglega margir aðrir kennarar get ég verið pirraður kennari. Ég get líka verið fastur í hlutum eins og að ,,komast yfir efnið“, fastur í vikuskipulaginu, smáatriðum og misgóðum möppuverkefnum. Þess vegna er nauðsynlegt að vera óhræddur að endurmeta sjálfan sig, hugsa upp á nýjum eða endurbættum kennsluaðferðum. Taka U-beygjur eða keyra utan vegar. Losa sig úr hlekkjum vanans. Vera djörf. Ungt fólk býr yfir mikilli orku, sköpunþörf og hæfileikum. Kennarar mega ekki letja það kerfisbundið. Við eigum að virkja. Það kemur fyrir að ég sé nemendur mað hálflokuð augun á góðri leið að sofna yfir því sem borið er á borð. Þá hugsa ég stundum þegar ég ligg á koddanum á kvöldin: Gerði ég eitthvað vitlaust? Get ég gert eitthvað öðruvísi? Hvað hefði John Keating gert?
Það er ekki markmið hjá mér í sjálfu sér að breyta heiminum eða breyta nemendum eftir mínu höfði. Það miklu frekar markmið að nemendur skynji að það er hægt að breyta heiminum. Þá er hálfur sigur unninn.
Carpe diem
Gerum lífið stórkostlegt.
Endalaust gaman að heyra barnið mitt tala um það sem þú ert að kenna, hún kemur heim með ganrýna hugsun og full af eldmóð.
Þú ert líka greinilega vel liðin meðal nemanda. Ég myndi sofa rólegur….það er hálfur sigur unninn.