Kjarnastarfsemi skóla og skólar sem ganga upp

School_20KidsÍ  janúar sl. tjáðu tveir menn sig um skólamál á mbl.is. Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði m.a. að leggja bæri áherslu á kjarnastarfsemi skólanna og að hann efaðist um að skólastefnan, Skóli án aðgreiningar væri að skila tilætluðum árangri. Hann benti einnig á að skoða þyrfti hver kjarnastarfsemin væri og hvert væri aðalverkefni kennara. Ólafur Loftsson formaður Félags grunnskólakennara fjallaði um aukið álag á kennara og fjölgun verkefna sem skólum er ætlað að sinna. Hann leggur til að þörf hvers og eins nemanda verði metin og hópunum verði raðað þannig saman að kennsluþörfin ráðist af samsetningu nemendahópsins en ekki af fjöldanum. Hann veltir einnig upp spurningunni um hvort menn hafi hugsað til enda hvað skólastefnan um Skóla án aðgreiningar þýði í raun og veru.

Gagnrýnin og ígrunduð umræða er til þess fallin að velta upp margvíslegum hliðum mála, krefja þá sem taka þátt í umræðunni  um að skoða margvísleg rök og hliðar mála og síðast en ekki síst vekur hún upp nýjar spurningar sem geta verið til þess fallnar að leiða umræðuna áfram yfir á næsta stig. Þær spurningar sem vöknuðu hjá mér við lestur þessarar umfjöllunar voru m.a. hver  kjarnastarfsemi grunnskóla væri, hvaða árangurs við væntum af skólastefnunni um Skóla án aðgreiningar og í hverju felst það að hún gangi upp.

Ætla má að kjarnastarfsemi grunnskóla snúist um eða að minnsta kosti tengist að verulegu leiti hlutverki og markmiði grunnskólans, sem er, eins fram kemur í lögum um grunnskóla, að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Þetta markmið skólans hlýtur að vera samofið öllu skólastarfi, námi og kennslu,  hverju fagi, verkefni og viðfangsefni. Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla eru settir fram sex grunnþættir sem mynda kjarna þeirrar menntastefnu sem þar er sett fram. Þeim er ætlað að vera almennt leiðarljós í starfsháttum og allri menntun í grunnskóla og skulu þeir m.a. birtast í inntaki námsgreina, námssviða, hæfni nemenda, námsmati og skólanámskrá. Í skólastarfi er kennsla, einstök verkefni eða viðfangsefni ekki markmið í sjálfu sér heldur þau tæki sem við notum  til að vinna sem best og árangursríkast að markmiðum grunnskólans fyrir hvern og einn nemanda. Markmið og hlutverk grunnskólans verður því að leggja til grundvallar við skoðun á því hver kjarnastarfsemi grunnskóla er eða á að vera.

Halldór setur fram efasemdir um að skólastefnan Skóli án aðgreiningar sé að skila tilætluðum árangri og Ólafur spyr hvort menn hafi hugsað til enda hvað stefnan þýði í raun og veru. Það er mikilvægt að velta upp slíkum spurningum og umræðu um þær. Hver er þessi tilætlaði árangur og erum við sammála um hver hann er eða eigi að vera? Hvað þýðir stefnan í raun og veru og erum við sammála um hvað hún þýði eða eigi að þýða? Í mínum huga er fjölskyldan og menntakerfið kjarni hvers samfélags. Þessir aðilar vinna saman að menntun og uppeldi nýrra kynslóða sem er að mínu mati kjarnahlutverk hvers samfélags. Það er því afar mikilvægt að byggja upp sameiginlegan skilning, sameiginlega ábyrgð og skuldbindingu í samfélagi gagnvart því hlutverki sem skólaskyldustigið á að sinna og þeim leiðum sem við viljum fara að markmiði þess.

Ítrekað hefur komið fram í umræðunni um Skóla án aðgreiningar að stefnan sé góð, hún sé falleg hugsjón en gangi ekki upp, sé ekki að virka, að við þurfum að fara aðrar leiðir. Ólafur talar um samsetningu nemendahópa og röðun í þá, sumir segja að fjölga þurfi sérskólum, breyta inntökuviðmiðum í þá sem fyrir eru, stofna þurfi sérúrræði og síðast en ekki síst tala menn um að úrræði vanti án þess að setja fram nánari greiningu á við hvað er átt. Þessi umræða vekur einnig fjölmargar spurningar. Vilja menn hverfa frá stefnunni um skóla án aðgreiningar og ef svo er hvaða stefnu eigum við að fylgja? Viljum við flokka nemendur  og ef svo er hvernig ætla menn að hafa þá flokkun í sérskóla, sérúrræði, innan almennra grunnskóla? Í hvernig flokka á að flokka? Hvaða nemendur verða í almennum grunnskólum, almennum bekkjum og hvaða nemendur ekki? Hver tekur ákvörðun um það? Mun grunnskólinn geta unnið samkvæmt núverandi hlutverki og markmiði í slíku kerfi? Spurningarnar eru fjölmargar og miklu fleiri en þessar.

Nýlega var samþykkt ný stefna um skóla án aðgreiningar og sérstakan stuðning við nemendur í grunnskólum í Reykjavík. Að þessari stefnu komu fjölmargir aðilar, beint og óbeint. Á grundvelli alls þess efnis sem safnað var, þeirra ábendinga sem bárust og umfjöllunar sem fram fór var sett fram skilgreining á skólastefnunni Skóla án aðgreiningar, sem tekur til viðhorfa, félagslegs samspils og þátttöku nemenda, sveigjanleika og fjölbreytni og besta mögulega árangurs hvers nemanda og til stuðnings í skólastarfi. Skólastefnan um Skóla án aðgreiningar er ekki eingöngu markmið í sjálfu sér, hún er ferli í sífelldri þróun. Ferli sem byggir á hugmyndum okkar um lýðræði, jafnrétti, virðingu og þátttöku.

Grunnskólinn er ein af mikilvægustu stofnunum hvers samfélags. Hann er vinnustaður allra barna á aldrinum 6 til 16 ára. Afar mikilvægt er að lifandi og opin umræða fari fram um grunnskólann, hlutverk hans og starfshætti. Umræða sem einkennist fyrst og fremst af virðingu og sameiginlegri ábyrgð samfélags og skóla.

 

Hrund Logadóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s