Þetta er spurningin sem ég lagði af stað með þegar ég hóf meistaraprófsrannsókn mína fyrir um áratug síðan. Ég hafði fundið fyrir vaxandi óvissu varðandi hlutverk og ábyrgð skóla og foreldra þannig að stundum minnti á valdabaráttu. Þegar ég kannaði hug og reynslu annarra kennara komst ég að raun um að lang oftast var reynslan af samstarfi við foreldra góð en með góðri reynslu áttu þeir almennt við að foreldrar stóðu undir væntingum kennaranna, gengu í takt við skólann og voru þakklátir. Ég kynntist því líka að margir kennarar höfðu aðra sögu að segja m.a. hitti ég kennara sem höfðu sótt um stöðu sérgreinakennara til þess að losna undan samstarfi við foreldra sem hafði reynst þeim um megn. Aðrir kennarar sögðu mér frá miklum erfiðleikum sem hægt var að rekja til gagnkvæms vantrausts og/eða baráttu um það hver ætti að ráða. Ég ræddi líka við mæður sem voru mis ánægðar með samstarf sitt og skóla barna sinna, sumar höfðu aðeins góðar sögur að segja og sögðust treysta kennara barna sinna í einu og öllu en aðrar höfðu m.a. upplifað að áhyggjum þeirra var mætt með tortryggni eða afneitun í skólanum, sem hafði fyllt þær enn meiri kvíða. Sumar þessara mæðra töldu sig þurfa að berjast fyrir rétti sínum til að hafa áhrif á nám og velferð barna sinna og orðið mis vel ágengt.
Þegar litið er til þess hvernig samband skóla og samfélags hefur þróast er það ástand sem ég var að lýsa ekki óeðlilegt. Fyrir aðeins fáeinum áratugum síðan voru dregin skýr mörk milli skóla og heimilis og afskipti foreldra af skólanum ekki aðeins talin óþörf heldur óæskileg. Ætlast var til þess að foreldrar treystu kennurum það var aftur á móti hlutverk þeirra að ala börnin sín upp og sjá til þess að þau aðlöguðu sig að þörfum skólans. Vald kennarans var óumdeilt og náði jafnvel inn á heimilið því án nokkurs samráðs við foreldra gat hann ráðstafað tíma fjölskyldunnar í heimanám sem foreldrarnir þurftu að finna tíma og leið til að mæta svo þeir yrðu ekki álitnir ábyrgðarlausir uppalendur.
Eitt af því sem skólinn gerði, kannski til að losna við afskipti foreldra, var að gefa þeim til kynna að kennararnir vissu best og því væri engin þörf fyrir þátttöku foreldra í öðrum verkefnum en þeim sem skólinn úthlutaði þeim en það voru einkum auk heimanámsins, upplýsingar, fundir og kynningar sem skólinn stóð fyrir og bauð foreldrum að koma að í hlutverki gesta.
Margir kennarar og foreldrar eiga sjálfir rætur í þessu umhverfi og því er ekki alltaf auðvelt fyrir þá að aðlagast þeim breyttu væntingum sem nú ríkja og m.a. má sjá í lögum um grunnskóla og aðalnámskrá þar sem gert er ráð fyrir að samstarf foreldrar og kennara sé á jafnréttisgrunni. Kennarinn þarf því að afsala sér valdi hins betur vitandi sérfræðings en hefur í auknum mæli fengið það hlutverk að leita leiða til að gefa foreldrum aukna hlutdeild í námi barna sinna og í starfi skólans. Óttinn við að missa völd getur verið sterkur en líka eðlilegur, því hver vill missa völd sín í hendur annarra? En völdum fylgir ábyrgð og staðreyndin er sú að mörgum kennurum finnst þeir vera að kafna undan allri þeirri ábyrgð sem yfir þá hefur hellst. Kannski hefur þessi aukna ábyrgð einmitt komið til vegna þess hvað þeir höfðu lagt mikla áherslu á sérfræðiþekkingu sína og að þeir þyrftu ekki að foreldrum að halda.
Nú liggur ljóst fyrir að áhrif foreldra á nám og líðan barna þeirra eru meiri en almennt var vitað og enda þótt góðir kennarar séu afar mikils virði þá er það velferð nemenda fyrir bestu að foreldrar og skóli deili ábyrgðinni á námi og líðan nemenda. Þetta er staðreynd sem krefst mikils og góðs samstarfs kennara og foreldra.
Ég játa að svarið sem ég fann við spurningu minni var ekki jafn einfalt og ég hafði vonast eftir og krefst mikils bæði af kennurum og foreldrum, fyrst og fremst breyttra viðhorfa. Samstarf sem byggir á jafnræði krefst sértaka vinnubragða en síðast en ekki síst samræðu kennara og foreldra. Skólinn þarf að upplýsa foreldra svo þeir verði sem best í stakk búnir til að nýta vald sitt og ábyrgð í þágu barna sinna, bekkjarins og skólans á eigin forsendum og í samræmi við áherslur skólans, lög og námsskrár.
Eins og oft vill verða vakti spurningin upp nýjar spurningar meðal annars um hvað samstarfið á að vera, hvernig það að vera og hver ber ábyrgð á hverju? En það er efni í annan pistil.
NKC