-ði -di og -ti

Eitt af því sem íslensk börn þurfa að læra á 10 ára grunnskólagöngu er að þekkja muninn á veikri og sterkri beygingu sagnorða. Hversvegna þeim er gert að læra þetta hef ég reyndar aldrei skilið. Ekki frekar en ég skil afhverju þau þurfa að læra að greina setningar í frumlag, andlag o.s.frv. Ég skildi það ekki þegar ég var sjálfur í grunnskóla og enn síður nú, þegar ég kenni í grunnskóla.

Ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna börn þurfa að læra gardínudeilingu þegar hægt er að deila með einum takka á reiknivél. Reiknivélar eru til á hverju heimili. Aukinheldur eru þær í öllum I-podum og gsm símum. Hvers vegna má ekki nota þær nema stundum veit ég ekki. Enda veit ég svo sem ekki margt. Ég hef spurt mér fróðari menn, en um þetta virðast skiptar skoðanir.

Íslenskt skólakerfi er þrátt fyrir þetta tuð í mér um margt býsna gott. Ýmsu má þó breyta. Það er altént mín skoðun. Tæknigrúsk, tónlist, dans, leiklist, tjáning og í raun allt sem viðkemur sköpun má að mínu viti fá meira vægi. Og margt fleira. En spurningin er alltaf, á kostnað hvers?

Hvað börn eiga að læra í grunnskóla er ákveðið af menntayfirvöldum og gefið út í Aðalnámskrá grunnskóla. Í hvert skipti sem ný Aðalnámskrá kemur út hefur einhverju verið bætt við. Einhverju sem talið er nauðsynlegt að kenna íslenskum börnum. Sjaldgæfara er að eitthvað sé tekið út og nú er svo komið að engin leið er að komast yfir allt sem kveðið er á um í námskránni. Jafnvel þótt grunnskólaskylda væri lengd í 20 ár.

Í nýútkominni Aðalnámskrá kveður þó við nýjan tón, því nú fá skólar meiru að ráða um það hvað þeir kenna og hvað ekki. Ég þykist vita að í mörgum skólum sé því tækifæri tekið fegins hendi. Ég veit til að mynda að á mínum vinnustað er nú þegar farin af stað vinna við að útfæra skólanámskrá sem verður sjálfstæðari en fyrri námskrár, ef svo má að orði komast. Í þeirri vinnu er m.a. leitast við að svara því hvaða þekkingu börn þurfa að búa yfir eftir 10 ára grunnskólagöngu.

Ég get ekki sagt til um hvað börnin sem byrja í skóla í haust þurfa að kunna eftir 10 ár, en ég er nokkuð viss um að þau þurfa ekki að vita að sagnorð sem beygjast veikt enda á -ði, -di eða –ti í þátíð.

Heimir Eyvindarson, kennari í Hveragerði

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s