Við og hinir

Er einelti ofbeldi? Er eitthvað sameiginlegt með kynþáttafordómum og ofbeldi? Hvernig má stuðla að því að foreldrar verði meðvitaðri um áhrif sín á einelti í skólum? Er samband milli starfshátta í skólum og ofbeldis?  Hvernig eigum við að bregðast við þeim sem ekki taka þátt í að byggja upp samfélag án ofbeldis? Er munur á ofbeldi í skólum eftir löndum?  Hvernig getum við stuðlað að því að allir kennarar verði meðvitaðir um hvað viðhorf þeirra geta haft mikil áhrif á samskipti nemenda?  Þessar spurningar voru meðal þeirra sem 32 kennarar og aðrir sérfræðingar í skólamálum tóku til umfjöllunar í lokaáfanga leiðtogaþjálfunar Pestalozzi sem haldið var í Madrid í síðustu viku. Sérfræðingarnir komu frá fleiri en 20 Evrópulöndum og vinna allir að markmiðum menntastefnu Evrópuráðsins um skóla án ofbeldis þar sem öll börn búa við öryggi.

Það er ómetanlegt að fá að taka þátt í verkefni sem þessu, að fá tækifæri til að deila þekkingu og reynslu með jafn breiðum hópi fagfólks sem, þegar upp er staðið,  á miklu meira sameiginlegt en ég átti von á. Eins og gefur að skilja eru sérfræðingarnir frá löndum fyrrum Jugoslaviu að takast á við mun dramatískari aðstæður en við sem komum frá norður Evrópu. Í Kosovo fara börn ýmist í skóla þar sem töluð er albanska eða serbneska og þó þau búi við sömu götu skilja þau ekki hvort annað. Fyrir fáeinum árum börðust feður þeirra í grimmilegu stríði þar sem allir misstu nána ættingja og vini. Megin verkefni sérfræðingsins frá Hollandi var að finna leiðir til að takast á við fordóma gegn samkynhneigðum nemendum og innflytjendum.   Við Elísabet frá Íslandi einbeittum okkur að því að skilja orsakir eineltis meðal barna sem valdið getur óbærilegum sársauka.

Þrátt fyrir að viðfangsefnin virðist ólík eru allir 32 þátttakendurnir í megin dráttum að glíma við áþekk vandamál sem í grunninn byggja á hugmyndinni um okkur og hina. Við teljum okkur á einhvern hátt vera betri en þú ert og þess vegna átt þú ekki sama rétt og við.  Við erum kristin, þú ert múslimi. Við erum gagnkynhneigð þú samkynhneigð/ur. Við erum innfædd, þú ert útlendingur.  Við erum skemmtileg þú ert leiðinleg/ur.

Hindranirnar eru líka áþekkar og mjög kunnuglegar; starf kennarans er vanmetið, það eru gerðar of miklar kröfur til skólans, foreldrar eru ekki nægilega ábyrgir, kennarar  hafa  meiri áhuga á því að aðrir takist á við einelti sem upp kemur meðal nemenda en að hindra að það nái að festa rætur.

Hugmyndafræði Pestalozzi byggir á því að einelti sé ein tegund ofbeldis, orðið einelti (bully) er því fyrst og fremst notað þegar þarf að skilgreina ofbeldið nánar. Það er litið svo á að ofbeldi sé oftar félagslegt vandamál en vandamál ákveðinna einstaklinga og þannig afleiðing af óæskilegu samfélagsmynstri.  Þess vegna skipta forvarnir svo miklu máli.

Í umhverfi þar sem börnum er kennt að vera saman sem heild þar sem enginn er undanskilinn, eru mun minni líkur á því að einelti og annað ofbeldi nái að festa rætur og ef það kemur upp verður auðveldara að takast á við það. Kennsluhættir hvort sem um er að ræða móðurmálskennslu, stærðfræði eða annað einkennast af því að nemendur fá markvissa þjálfun í samstarfi þar sem allir taka ábyrgð miðað við þroska og getu og njóta réttmætrar virðingar.

Pestalozzi-námskeiðin taka mið af þessum áherslum og því er minna um fyrirlestra en almennt gerist en hinsvegar mikið um samvinnuverkefni og gert ráð fyrir að þátttakendur uppgötvi saman, dragi eigin ályktanir og komi sér saman um niðurstöður.

Við lok námskeiðsins í Madrid var mikill samhugur meðal þátttakenda og allir  orðnir enn sannfærðari en áður um gæði Pestalozzi verkefnisins og þeirrar aðferðafræði sem fylgt er. Vonandi ná háleit markmið menntastefnu Evrópuráðsins um skóla án ofbeldis, fram að ganga. En eins og fram kom á námskeiðinu þykjast sumir sjá váleg teikn um vaxandi ofbeldi í Evrópu vegna sífelldrar umræðu um okkur og hina.

Mig langar til að hvetja kennara og aðra sérfræðinga í skólamálum að nýta sér möguleika á  þátttöku í Pestalozzi verkefnum í framtíðinni.  Það er vinna sem er þess virði að leggja á sig.

Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að sækja um að taka þátt í Pestalozzi vinnustofum fást á SRR á Menntavísindasviði HÍ  í síma 525 5983.

 NKC

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s