Hvers vegna heimanám?

Heimanám er kannski ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann á sólbjörtum júnídegi en pistill sem birtist hér í Krítinni fyrir skömmu undir fyrirsögninni Að snúa kennslustundum á hvolf vakti mig enn einu sinni til umhugsunar um efnið. Er virkilega nauðsynlegt að börn læri heima þegar þau hafa lokið vinnudegi  í skóla og frístund?

Heimanám hefur verið jafn sjálfsagður fylgihlutur skólans og skólataskan. Ég hef stundum lýst efasemdum mínum um mikilvægi heimanáms og ósjaldan uppskorið ótta foreldra og hneykslan kennara, rétt eins og allt fari úr böndunum ef börnin sleppta yfirvinnunni.  En skiptir heimanám svona miklu máli og ef svo er að hvaða leyti?  Bandaríski höfundurinn Alfie Kohn   er ekki í nokkrum vafa um gagnsleysi hefðbundins heimanáms með tilliti til námsárangurs og finnur því flest til foráttu.  Mér er ekki kunnugt um rannsóknaniðurstöður hér á landi sem sýna fram á áhrif heimanáms  hins vegar er ljóst að heimanám fer fram í flestum íslenskum skólum.  Niðurstöður fjölmargra erlendra rannsókna sem skoða tengsl námsárangurs og heimanáms eru misvísandi. Sérstaklega virðast rannsóknir á yngri börnum sýna að gildi heimavinnu hefur mjög lítið að segja um hvernig barnið stendur sig í að tileinka sér námsefnið (Guðný I. Einarsdóttir o. fl. ; 2010).

Canadian Council on Learning  lét skoða kerfisbundið niðurstöður rannsókna um heimanám og hvað þær segðu um áhrif eða tengsl heimanáms og námsárangurs. Lokaniðurstöður voru að heimanám virðist hafa takmörkuð áhrif á námsárangur nemenda. Eldri nemendur og nemendur sem eiga við sértæka námsörðugleika að etja eru þó líklegastir til að njóta góðs af heimavinnu. Þar virðast foreldrar gegna mikilvægu hlutverki.

Hópur meistaranema við Menntavísindasvið HÍ skrifaði haustið 2010 athyglisverða ritgerð;  Er vitlaust gefið? Mismunar heimanám nemendum? Leiðbeinandi þeirra var Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. Þar er m.a. skoðað hvort heimanám sé réttlátt með tilliti til mismunandi félagsstöðu nemenda. Höfundar benda á að aðstæður á heimilum nemenda séu mismunandi.  Börn sem búa við góðar félagslegar aðstæður þar sem foreldrar hafa tíma og menntun til að aðstoða börn sín standa jafnan mun betur að vígi en hin. Heimanámið getur þannig orðið til að mismuna nemendum og styðja við þarfir og viðhorf millistéttarinnar.

Að þessum forsendum gefnum þá hefur heimanám almennt lítil eða engin áhrif á námsárangur yngri nemenda (oft talað um yngri en 14 ára) auk þess að stuðla að mismunun.  Ég hef engar rannsóknir sem styðja skoðun mína en löng reynsla segir mér að á sumum heimilum a.m.k. geti heimanám þar að auki oft valdið spennu og álagi í kjölfar langs vinnudags og stuðlað að neikvæðu viðhorfi til skólans. Það er því athyglisvert að velta því fyrir sér hvers vegna heimanám nýtur jafn mikils trausts og raun virðist.

Getur verið að heimanám sé í einhverjum tilvikum aðferð kennarans til  að gera foreldra ábyrga fyrir námsárangri barna sinna?  Það verður þá ekki við kennarann einann að sakast ef árangurinn verður undir væntingum. Ég kannast a.m.k. við að kennarar verða fyrir vonbrigðum með foreldra sem ekki standa sig við heimanámsaðstoðina  og telja að það geti skýrt ófullnægjandi námsárangur barna þeirra. Í verstu tilvikunum getur heimanámið orðið táknmynd valdabaráttu og skapað skaðlega spennu milli skóla, foreldra og barns.

Margir foreldrar sem ég hef rætt við telja heimanámið afar mikilvægt því þannig gefist þeim tækifæri til að fylgjast með námi barna sinna. Þessi þörf foreldra er vel skiljanleg og afar virðingarverð enda telja ýmsir fræðimenn það vera með mikilvægari verkefnum skólans að finna leiðir til að gefa foreldrum aukna hlutdeild í námi barna sinna og á þeirra forsendum (Desforges og Abouchair, 2003).

Spurningin er hvort hefðbundið heimanám (vinnubækur, lestur og ritun) sé besta leiðin til að gefa öllum foreldrum tækifæri til að styðja börn sín og fylgjast með árangri þeirra.  Sjálf efast ég m.a. vegna þess að í hefðbundnu heimanámi eru foreldrar fyrst og fremst að fara að fyrirmælum kennara og verða því áhrifalausir stuðningsaðilar. Hugsum okkur nemendur sem er ætlað að læra margföldunartöfluna. Hefðbundið heimanám  gæti þá falist í því að þeir fara heim með stærðfræðibækurnar sínar með skilaboðum um að reikna margföldunardæmi á tilteknum blaðsíðum. Þannig sjá árvakrir foreldrar vissulega hvað barnið þeirra er að læra. En vilji kennarinn efla foreldrana með því að gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif og taka ábyrgð á námi barnsins á eigin forsendum gæti hann t.d. með góðum fyrirvara upplýst foreldra um að innan tiltekins tíma sé gert ráð fyrir að barn þeirra verði búið að læra margföldunartöfluna þannig að það geti nýtt sér hana og sýnt  fram á fjölbreyttan skilning.  Jafnframt yrði foreldrunum sagt frá því hvernig unnið verði með viðfangsefnið í skólanum. Loks yrði foreldrum bent á mismunandi leiðir s.s. leiki og þrautir, sem auðvelt er að gera heima, til að styðja börn sín við að læra margföldunartöfluna og meta árangur.  Foreldrarnir geta þá valið hvernig þeir nýta sér leiðbeiningarnar og þann tíma sem best hentar hverjum og einum.

Mergurinn málsins er að hefðbundið heimanám eins og við þekkjum það er umdeilanlegt og löngu kominn tími til að við ígrundum alvarlega hvort ekki megi finna áhrifaríkari leiðir til að gefa öllum foreldrum tækifæri til að eiga hlutdeild í námi barna sinna í samræmi við aðstæður hvers og eins. Það er aldrei auðvelt að breyta hefðum, ef ekki goðsögnum, en það er í höndum okkar fagfólksins að stuðla að þróun skólastarfs og leiða samstarfið við foreldra með velferð barnanna að leiðarljósi.

NKC

Heimildir:

Guðný I. Einarsdóttir, Helgi Gíslason, Hreiðar Sigtryggson, Sigurður Arnar Sigurðsson, Þorbjörg Sandholt, Þorgerður Jónsdóttir. (2010). Er vitlaust gefið? Mismunar heimanám nemendum? Reykjavík: Óútgefið hópverkefni, Háskóli Íslands Menntavísindasvið.

3 athugasemdir við “Hvers vegna heimanám?

  1. Hér er ein rannsókn með niðurstöðum í sama dúr: „pupils belonging to the upper part of the socioeconomic status scale perform better when homework is given, whereas pupils from the lowest part are unaffected. At the same time more disadvantaged children get less help from their parents with their homework. Homework can therefore amplify existing inequalities through complementarities with home inputs.“ Rønning, M. (2008). Who benefits from homework assignments? Discussion Papers.

    Click to access dp566.pdf

  2. Mér finnst líka vanta í þessa umræðu hvað skólinn hefur breyst mikið á stuttum tíma, Ég kenndi 1. bekk 1992 og þau voru frá 9-12 í skólanum og þá helling eftir af deginum, Núna eru mikið meiri viðvera í skólanum svo bæði er minni tími og minni ástæða til að vera með heimanám.

  3. Heimanámið á að fara fram í skólanum undir handleiðslu fólks sem þekkir og kann viðkomandi efni! Ég tel að það mætti gera þetta með litlum tilkostnaði með því að bæta kennsluskyldu við kennaranám. Þannig fengjust líka hæfari kennarar þegar prófi er lokið (mun meiri þjálfun í að miðla og kenna) auk þess sem þeir sem ekki hafa raunverulegan áhuga á kennslu myndu síast úr. Þegar börnin koma heim eftir langan vinnudag eiga þau ekki að þurfa að vinna eftirvinnu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s