Lenging skólaársins

Nú eru sumarfrí í mörgum skólum. Þegar ég kenndi var sumarfríið í grunnskólunum lengst af 3 mánuðir og þótti sjálfsagt lengi vel. Seinustu ár mín í kennslu var skólaárið lengt og kennt var fram í júni og kennsla hafin aftur í lok ágúst.  Þetta var líklega fyrst og fremst gert til að koma lítillega til móts við löngu breytt þjóðfélag.  Það var verið að bregðast við því að foreldrar voru í vandræðum með börn sín stóran hluta sumarsins vegna vinnu sinnar. Að mínu mati er eðlilegt að skólinn lagi sig að samfélaginu og gangi í takt við það, þó mér finnist reyndar að skólinn eigi einnig að reyna að vera áhrifavaldur á samfélagið sem er svo önnur og lengri saga sem hér verður ekki sögð.

Mikil umræða var á sínum tíma um nýtingu þessara aukadaga, sérstaklega þeirra í júní. Foreldrum sumum hverjum fannst dagarnir illa nýttir og börnin þeirra ekki fá næga kennslu þegar endalaust var verið að fara með þau út og í ferðir hingað og þangað.  Kennarar vita hins vegar að tækifæri til náms og kennslu geta leynst víða og ekki endilega þörf á því að hafa námsbók eða fjóra veggi í kringum sig til að nemendur læri.  Þær hugmyndir að útivist með nemendum sé einungis til skemmtunar og því ekki hluti af alvöru námi eru gamaldags og afhjúpa fáfræði um það hvað nám er fjölbreytt og getur falið margt í sér. Þess vegna varð ég svo hissa þegar ég átti tal við kennara fyrir nokkrum árum sem fannst fráleit sú hugmynd sem kom upp eftir haustið 2008 að fækka skóladögum nemenda til að spara, því þá væri verið að brjóta á réttindum barna að hans mati. Það sem gerði mig mest hissa var að seinna í sama samtali talaði sami kennari um hversu erfitt væri að gera neitt af viti í skólanum á þessum árstíma því nemendur væru svo lítið móttækilegir og þreyttir eftir veturinn.

Kennarinn var í algjörri mótsögn við sjálfan sig að mínu mati, vildi annars vegar endilega halda lögbundnum skóladögum mörgum vegna þess að það væri réttur barnanna en taldi hins vegar að þeir nýttust illa því börnin væru svo þreytt eftir langan vetur.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir kennara með þessa skoðun að rökstyðja það fyrir foreldrum, sem gera kröfur um markvisst nám alla skóladaga, að verið sé að vinna markvisst þó farið sé í lengri og styttri ferðir eða námið brotið upp með öðrum hætti. Kennarinn sem umræðir virðist sjálfur hafa þá skoðun að lenging skólaársins sé marklítil fyrir nám nemenda og tekur því undir með þeim foreldrum sem enn kvarta yfir ómarkvissri kennslu á vordögum. Hann telur samt að þessir dagar séu mikilvægir fyrir réttindi barna án þess að rökstyðja það nánar.

Það hlýtur að vera mikilvægt að kennarar geti  rökstutt  mikilvægi þess að brjóta upp nám nemenda með öðrum hætti en þeim að langt skólaár sé nemendum ofviða og ekki megi gera neinar kröfur til þeirra á þessum dögum.   Þetta eru rök sem kröfuharðir foreldrar kaupa ekki  og virka ekki sem haldbær rök fagstéttar. Það á að gera kröfur til nemenda  á hverjum skóladegi, en kröfurnar þurfa ekki alltaf að vera þær sömu, þær taka mið af því hvaða nám er verið að ýta undir og hvaða aðferðum er beitt til að nám geti átt sér stað. Það eiga kennarar að geta útskýrt með trúverðugum hætti fyrir foreldrum svo þeir skilji að það er ekki verið að hangsa í skólanum þó kennslan sé brotin upp.

Kennarar geta ekki útskýrt þetta fyrir öðrum nema þeir séu meðvitaðir um það sjálfir hverju þeir vilja ná fram  hjá nemendum og hvers vegna. Fagmaðurinn byrjar á að skilgreina fyrir sjálfum sér hverju hann er að vinna að svo hann geti sannfært aðra um hann sé að vinna markvisst. Þegar við tölum í kross í mótsögn við okkur sjálf hættir fólk að treysta fagmennsku okkar. Því þurfum við að vanda okkur.

 

EK

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s