Réttindi og ábyrgð

Eitt af því sem vakti hvað mest athygli mína þegar ég kynntist skólakerfinu í Toronto síðastliðið vor var áherslan á ábyrgð einstaklinganna í samfélaginu. Ábyrgðin lá eins og rauður þráður í gegnum allt sem blasti við. Í skólunum var nemendum markvisst kennt að samfélagið væri sameiginleg ábyrgð þeirra allra, að athafnir þeirra hefðu áhrif til góðs eða ills. Þetta mátti m.a. sjá í sameiginlegum gildum allra skóla sveitarfélagsins sem alls staðar voru afar áberandi og skipulega tekin til umfjöllunar. Allir nemendur í unglingadeildum þurfa t.d. að velja sér samfélagsverkefni og sinna því sem sjálfboðaliðar ákveðinn tímafjölda á árinu, mig minnir að þetta hafi verið nálægt 70 stundum.  Í einum skólanna sá ég nemendur vera að selja ávaxtasafa sem þeir höfðu sjálfir búið til en ágóðinn af sölunni átti að renna til hjálparstarfs í fjarlægu landi, en mér skilst að verkefnin séu mörg og fjölbreytt.  Við hittum einnig hóp nemenda sem var að læra hvernig á að vera leiðtogi  í lýðræðissamfélagi og um þá ábyrgð sem því fylgir.

Í unglingaskólanum Kings Academy tók hópur fólks okkur  Íslendingunum opnum örmum og bauð okkur til veitinga sem þauhöfðu m.a. komið með að heiman. Þarna voru bæði kennarar, stjórnendur, foreldrar og kjörnir fulltrúar. Allt var fólkið   jafn stolt af skólanum SÍNUM og það var svo augljóst að allir vildu veg hans sem mestan og þau voru tilbúin til að leggja sitt af mörkum. Þarna var t.d. faðir sem hafði tekið að sér að gera upplýsingavef fyrir foreldrana á heimsíðu skólans. Foreldar skólans héldu mánaðarlega fræðslu – og umræðufundi  og til að tryggja að engir foreldrar þyrftu að fara á mis við fundina hafði þessi faðir ásamt fleirum komið því þannig fyrir að allir fundirnir voru sendir út gagnvirkt á netinu. Nei, þetta var ekki einkaskóli forréttindafólks, þvert á móti.

Kennararnir leggja líka sitt af mörkum í samfélagsvinnu þeir hafa m.a. umsjón með íþrótta- og frístundastarfi nemenda eftir að skóla lýkur án þess að taka laun fyrir.

Þarna sáum við í verki orð Kennedys fyrrum forseta Bandaríkjanna: Spurðu ekki hvað samfélagið getur gert fyrir þig, spurðu heldur hvað þú getir gert fyrir samfélagið.

Ég get ekki svarað því hvort eða hversu stóran þátt þessi afstaða á í því að skólarnir í Toronto eru meðal þeirra bestu í heiminum, en hún hafði djúp áhrif á mig og vakti mig til umhugsunar.

Mér finnst allt of algengt að við hér heima snúum orðum Kennedys við og spyrjum fyrst um rétt okkar en hættir til að gleyma ábyrgðinni. Það er að sjálfsögðu fjarri mér að gera lítið úr réttindum okkar, en erum við  ekki stundum of upptekin af því að innprenta börnum okkar og nemendum að þau hafi réttindi en gleymum að kenna þeim um ábyrgðina sem fylgir? Að réttindi og ábyrgð fara saman líkt og dagur og nótt.  Ættum við ekki líka að kenna þeim að við höfum í flestum tilvikum val um hugsanir okkar og atferli sem hefur áhrif til góðs eða ills í því samfélagi sem við erum í?  Og hvað með okkur fullorðna fólkið, hættir okkur ekki of oft til að gera kröfur  um að aðrir, hvort sem það er nú ríkið, skólinn eða eitthvað annað, tryggi velferð og hagsmuni okkar og barnanna okkar?  Er ekki hætt við að við setjum stundum óraunhæfa ábyrgð á aðra en gerum okkur sjálf stikkfrí eða að einhverskonar leiksoppum?

Við hér á Íslandi erum líklega ekkert öðruvísi en margar aðrar þjóðir  hvað varðar áhersluna á réttindi borgaranna fremur en ábyrgð.  Án þess að fullyrða nokkuð finnst mér þessi hugsun líka vera ríkjandi á hinum Norðurlöndunum og þannig hluti af ákveðinni menningu.

Nú ferð þú, lesandi góður, kannski að velta því fyrir þér hvort skólarnir hér á landi þurfi ekki að leggja aukna áherslu á að kenna nemendum um samfélagsábyrgð. Síst hef ég á móti því, enda er það hluti námskrár, en gleymum því ekki að fyrst og fremst þurfum við fullorðna fólkið að vera betur meðvituð um að orð okkar og athafnir geta haft veruleg áhrif á það hvernig samfélag okkar er.  En hugtakið samfélag getur átt við svo margt; heimilið, götuna okkar, félagana, skólann, vinnustaðinn okkar, hverfið, bæinn, borgina, þjóðina, mannkynið og svo mætti lengi telja.  Þegar börnin hafa þannig fyrirmyndir  öðlast námið raunverulegan tilgang og trúverðugleika í hugum þeirra, ég fékk á tilfinninguna að það væri raunin í Toronto.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s