Ef ég fer út í rigningu og rennblotna er það eðlilegasti hlutur í heimi að ég velti fyrir mér hvernig ég geti komið í veg fyrir að blotna næst þegar rignir. Ég reyni að finna út hvað gerði það að verkum að ég blotnaði og hvað ég geti gert til að hafa áhrif á að ég haldist þurr næsta rigningardag. Ég læt mig ekki dreyma um að reyna að stöðva rigninguna eða halda mig innandyra alla daga sem rignir. Ég reyni að finna út hvað ég get gert til að halda regninu frá mér. Maðurinn býr sem betur fer yfir getu til að velta fyrir sér eigin hegðun og færni til að gera áætlanir um betur viðeigandi viðbrögð eða athafnir en þær sem hann greip til síðast. Flest okkar gera þetta á hverjum degi, jafnvel oft á dag án þess að taka eftir því.
Kennara þurfa á þessari hæfni að halda þegar þeir skipuleggja starf sitt og sinna því ,enda gengur það sem upphaflega var áætlað ekki alltaf upp og þá þurfa þeir að endurskoða aðferðir sínar og reyna nýjar nálganir. Flestir kennarar gera þetta bæði yfirvegað og ósjálfrátt og verða færari í því eftir því sem reynsla þeirra eykst. Þeir sem eru heppnir með samstarfsfélaga fá jafnvel tækifæri til að ræða hugmyndir og hugsanir við samkennara sína og móta þannig hugmyndir sínar um úrbætur í samvinnu við aðra.
Starfendarannsóknir byggja á þessari hugsun, þ.e. því að skoða athafnir sínar markvisst og leggja sig fram um að betrumbæta þær með viðeigandi hætti. Það sem skilur þær þó frá venjubundinni yfirvegun mannsins á hversdaglegum hlutum og sjálfsskoðun er, að í þeim er gert ráð fyrir að notuð séu gögn sem styðja þær ályktanir sem við drögum af athöfnum okkar. Þær breytingar sem við gerum koma eftir markvissa söfnun gagna, ígrundun og vísbendingar sem við lesum úr gögnunum. Þannig getum við betur rökstutt hvers vegna við tökum tiltekna ákvörðun. En það að geta rökstutt ákvarðanir okkar með fyrirliggjandi gögnum ýtir undir það að við höfum áhrif, því skoðanir okkar verða áreiðanlegri í augum annarra. Það virkar trúverðugra þegar fólk rökstyður mál sitt með staðreyndum eða fyrirliggjandi gögnum heldur en ef við berum fyrir okkur tilfinningar okkar eða reynslu án gagna sem styðja við þær ályktanir sem við drögum.
Starfendarannsóknir eru á ýmsum stigum. Þær geta verið flóknar greiningar fræðimanna sem reyna að komast að því hvort leiktjöldin og raunveruleikinn eru hluti af sama leikriti og einfaldar umbóta rannsóknir þeirra sem rannsaka eigin athafnir í litlum athugunum og svo allt þar á milli. Hver rannsakandi vegur og metur hvernig hann ætlar að rannsaka það sem hann vil rannsaka og hversu viðamikil rannsóknin á að vera. Það eru ekki ákveðnar formúlur sem á að fylgja, miklu fremur hugmyndafræði sem einkennist m.a. af hugmyndum um lýðræði og réttindum hvers einstaklings til að hafa áhrif á eigið líf. Starfendarannsakendur eru í mínum huga nokkurs konar uppfinningamenn sem leita með markvissum hætti nýrra leiða til að ná fram því sem þeir vilja stefna að. Til þess að geta það þurfa þeir að vita með nokkuð óyggjandi hætti hvernig þeir vinna og finna út með hvaða hætti þeir gætu breytt starfi sínu til að ná fram því markmiði sem þeir hafa sett sér. Starfendarannsóknir snúa ekki eingöngu að því að rannsaka starfið sitt heldur fela þær í sér að rannsakandinn gengst inn á það að hann hafi áhrif á það sem gerist, hann viðurkennir að hans athafnir leiði til einhvers, góðs eða ills. Og starfendarannsakandi viðurkennir að með því að breyta eigin athöfnum hafi hann áhrif á það hver útkoman verður. Fyrir mér er þetta einn mikilvægasti kjarninn í starfendarannsóknum, því með því að viðurkenna að eigin athafnir hafa áhrif á hver útkoman verður valdeflist hver einstaklingur. Hann axlar ábyrgð á gjörðum sínum og ákveður að grípa til viðeigandi ráðstafana í stað þess að upplifa sig sem valdalaust fórnarlamd aðstæðna sinna og krefjast þess að aðrir geri eitthvað í málunum.
Þetta höfðar til mín vegna þess að ég tel mikilvægt að kennarar hafi sem mest sjálfræði yfir störfum sínum og réttur þeirra til að á þá sé hlustað sé virtur. Ef kennarar afsala sér völdum til utanaðkomandi sérfræðinga nú eða völdin eru tekin frá þeim af utanaðkomandi aðilum verður stéttin smátt og smátt að óábyrgum handbendum annarra. Ég hef lengi velt fyrir mér hvernig hægt sé að ýta undir það að sjálfræði kennara yfir eigin störfum aukist og/eða haldist hjá kennnurum og ég hallast að því að starfendarannsóknir séu eitt þeirra verkfæra sem kennurum er mikilvægt í þeirri valdabaráttu. Til að geta tekist á við alla þá sérfræðinga sem vilja hafa áhrif á eða draga í efa störf kennara er nauðsynlegt fyrir kennara að hafa sterka fagvitund sem þeir byggja markvisst upp. Þannig geta þeir átt samræðu við aðra sérfræðinga á jafnréttisgrunni.
Kennarar eflast ekki sjálfkrafa í starfi að mínu mati þó störf þeirra og fræðin um þau séu rannsökuð af öðrum fræðimönnum en þeim sjálfum. Þó þær rannsóknir séu nauðsynlegar til lengri tíma litið er hætt við því að þær skili sér seint og illa til þeirra sem vinna störfin á hverjum tíma. Jafnvel þó rannsakendur geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma sínum uppgötvunum til kennaranna þá er ekki sjálfgefið að sá fróðleikur hafi áhrif til þróunar á störf þeirra. Jafnvel þó kennarar uppveðrist á góðu námskeiði og vilji gjarnan grípa til allra góðu aðferðanna sem þar voru kynntar er algengast að við höldum okkur bara við það gamla góða sem við þekkjum svo vel, enda er vaninn eitt stærsta afturhaldsafl mannshugans. Starfendarannsóknir geta verið tæki til að brjóta það afl á bak aftur því ef þær eru stundaðar markvisst af hópi fólks geta samræður hópsins leitt til afhjúpunar ranghugmynda okkar um það hvað er nauðsynlegt og hvað ekki og þannig krafið okkur um að horfast í augu við eigin ranghugmyndir sem við höfum byggt upp, jafnvel eingöngu til að verjast því að þurfa að takast á við nýja hluti.
Ég tel að þeim kennurum, sem eru tilbúnir til að horfast í augu við það að athafnir þeirra hafa áhrif og geta rökstutt athafnir sínar með markvissum rannsóknum á eigin störfum, muni takast að halda eða jafnvel ná til sín aftur því nauðsynlega sjálfræði yfir eigin störfum sem fagstétt þarf að hafa. Hætt er við að kennarar sem vísa frá sér ábyrgð eða leyfa öðrum að hrifsa hana til sín dragi úr fagmennsku og virðingu gagnvart stétt sinni.
Ég sé fyrir mér að upp geti sprottið hópar kennara sem, undir handleiðslu sérfræðinga um starfendarannsóknir, stundi rannsóknir á því sem þeir sjálfir velja sér og með þeim aðferðum sem þeim henta. Sú vinna á að byggja á því að kennarastéttarinni sé treystandi til að þróa störf sín á eigin forsendum með því að byggja á þeirri miklu þekkingu sem býr í reynslumiklum kennurum. Hefðbundnir rannsakendur gagnast þessum hópum og styddu störf þeirra á forsendum kennaranna sjálfra. Kennararnir kynna sér hvað er í boði og leita til þeirra fræðimanna sem þeim henta hverju sinni. Þetta er viss viðsnúningur á valdapíramída sem ég held að væri soldið skemmtileg viðurkenning á því að fræðin þjóni vettvangi í stað þess að vettvangur eigi að fara eftir því sem talið er mikilvægt í fræðunum.
Starfendarannsóknir höfða til mín vegna þess að:
- ég tel valdeflingu kennara mikilvæga
- mér hentar kaos betur en nákvæmt skipulag til að fylgja
- ég tel vangaveltur áhugaverðari en hin einu réttu svör
- ég trúi á það að hverri manneskju sé nauðsynlegt að hafa ákvörðunarrétt yfir eigin lífi
- ég tel samræðu jafningja betri leið til þroska en að fylgja boðum að ofan
- ég tel mínar aðferðir, hugmyndir,niðurstöður eða gildi ekki æðri þeim aðferðum, niðurstöðum, hugmyndum eða gildum sem aðrir hafa öðlast á sinni lífsleið
- mér hugnast óhefðbundnar nálganir
EK
Góður pistill! Vel ígrundað.
Til hamingju með vefinn – flott framtak!