Félags-og samskiptafærni nemenda og forvitni

finnishlessonÍ haust fá Finnar nýja námsskrá en inntak hennar hefur þegar vakið athygli. Eins og fram kemur í The Independent er með nýju námsskránni lögð rík áhersla á þematengda kennslu þar sem meira og minna verður horfið frá því kennslufyrirkomulagi sem við þekkjum þar sem nemendur eru fyrst  40 mínútur í ensku, svo 40 mínútur í stærðfræði og því næst 40 mínútur í landafræði. Dæmi um nýja námsgrein er t.d. Evrópusambandið þar sem nemendur læra um allt það sem tengis sögu, landafræði, efnahag og tungumálum viðkomandi þjóða. Einnig verða sköpuð fleiri tækifæri til verklegs náms sem tryggja öllum nemendum nám við hæfi. Það á að mestu að segja skilið við hefðbunar kennsluaðferðir þar sem nemendur sitja í röðum fyrir framan kennarann, þess í stað mun verða meiri áhersla á samvinnu þar sem nemendur vinna í misstórum hópum að sameiginlegum lausnum um leið og þeir þjálfa samskiptafærni sína. Þetta gerir kröfur til kennara um að þeir vinni saman í teymum með nemendahópa. Jafnframt þessu verður gert ráð fyrir að nemendur taki mun virkari þátt í ákvörðunum  um það sem varðar nám og námsfyrirkomulag. Með þessum hætti á að stuðla að því að nemendur tileinki sér þá færni sem er mikilvægust fyrir þá. Nú þegar hefur yfir 70% kennara í finnskum skólum fengið sérstaka þjálfun í þessum nýju kennsluháttum.

Þeir sem hafa kynnt sér bók Pasi Sahlberg Finnish Lessons 2,0 kannast vafalaust vel við áherslur nýju  námsskrárinnar. Í bókinni segir hann að finnski skólinn verði að endurvekja skuldbindingu nemenda á námi sínu með einstaklingsmiðuðu námi. Hann varar við þeirri hugmynd að einstaklingsmiðað nám þýði að tölvur og einstaklignsverkefni taki við af kennurum. Nýi finnski skólinn verður þvert á móti að vera félagslega hvetjandi og öruggur svo allir nemendur geti tileinkað sér þá félagsfærni sem þeir þarfnast í lífinu (2015, bls.198).

Hér á eftir er stuttur útdráttur úr þeim kafla bókarinnar þar sem Sahlberg (2015, bls. 198-201) fjallar um þau fjögur atriði sem hann telur að þurfi að vera til staðar svo þessi markmið náist:

  1. Minni bekkjakennsla.

Í stað þess að eyða orku í að deila skólatímanum niður á námsgreinar ættum við að hafa hugrekki til að endurhugsa hvernig við nýtum tímann í skólanum. Það þýðir að við notum minni tíma í hefðbundnar námsgreinar eins og móðurmál, stærðfræði og vísindi en meiri tíma í ýmiskonar verkefni þar á meðal þemaverkefni. Salberg telur þó að bekkjakennsla þurfi enn að vera til staðar hjá yngstu nemendum meðan þeir eru að ná tökum á grundvallaratriðum.

  1. Meira einstaklingsmiðað nám.

Í flestum skólum innan OECD hefur dregið úr áhuga nemenda á námi. Salberg telur þetta stafa af dvínandi forvitni barna og fullorðinna. Hann segir forvitni vera megin drifkraftinn í námi og árangri, því verði að finna leið til að beisla forvitnina. Nemendur í dag hafa ótakmarkaðan aðgang að allskonar fræðslu og þekkingu í gegnum netið og þegar þeir koma í skólann búa þeir oft yfir meiri þekkingu á vissum sviðum en kennarinn. Það er því ögrandi viðfangsefni að finna jafnvægi í vel upp byggðri og faglega rökstuddri einstaklingsnámskrá sem unnin er í samstarfi kennara, nemanda og foreldra. Námsskrá sem byggir á áhuga nemandans.

  1. Áhersla á félagsfærni, samkennd og leiðtogahæfni.

Vissulega verður skólinn að tryggja að nemendur nái mjög góðum tökum á  grundvallaratriðum eins og lestri, stærðfræði og vísindum en það sem flest fólk þarf að kunna í framtíðinni er færnin til að eiga góð samskipti við annað fólk þar á meðal fólk sem er mjög ólíkt þeim sjálfum. Sumt er erfitt fyrir börn að læra annars staðar en í skólanum t.d. að leysa vandamál í samstarfi við aðra. Það mun verða eitt mikilvægasta viðfangsefni  skólanna að kenna nemendum, samkennd, samvinnu og að leysa vandamál á fjölbreyttan hátt í samstarfi við ólíkra einstaklinga.

  1. Tilgangur skólastarfs er að finna hæfileika þína.

Skólinn í dag dæmir hæfileika einstaklinganna eftir ákveðnum stöðlum. Afar sjaldgæft er að litið sé til hæfileika eins og sköpunar, listrænna hæfileika, flókinnar meðferðar upplýsinga eða hvernig nýjum hugmyndum er komið á framfæri. Það er nauðsynlegt að við endur skilgreinum hvað góður árangur í skóla merkir. Einstaklingar munu afla sér upplýsinga og þekkingar gengum netið, þess vegna verður sífellt erfiðara að átta sig á því hvað nemendur hafa lært í skólanum og hvað annarsstaðar. Vegna samkeppninnar við netið verður forvitnin í skólanum mikilvægari en nokkru sinni. Það ætti því að vera mikilvægur mælikvarði á gæði skóla í framtíðinni að skoða hvernig honum tekst að vekja forvitni nemendanna. Annað sem líka verður mjög mikilvægt að horfa til er hæfileiki nemenda til að skapa eitthvað nýtt. Hæfileikinn til að skapa ætti að vera jafn mikilvægur og læsi. Þegar meta á námsárangur einstakra nemenda eða hópa ætti sköpunarkraftur að vega þungt.

NKC

Heimild:

Sahlberg, P. (2015). Finnish Lessons 2,0. What can the world learn from educational change in Finnland? New York: Teachers Collage Press, Colombia University.

Færðu inn athugasemd