Mér verður stundum hugsað til lítils gutta sem sat hnípinn framan við skrifstofu skólastjóra. Þegar hann var spurður að því hvers vegna hann sæti þarna leit hann upp og sagði að það væri alltaf verið að skamma hann og senda til skólastjóra. „Kennarinn segir alltaf: Guðmundur, líka þó ég sé ekkert að gera, bara hinir, þeir eru samt aldrei skammaðir“, sagði guttinn með uppgjafarsvip.
Það er ekki erfitt að setja sig í spor barns sem upplifir endurteknar skammir í skólanum. Í huga barnsins stendur það eitt og hjálparvana andspænis kennaranum og kannski skólastjóranum líka. Kennara sem augljóslega líkar ekki við það. Þegar þetta hefur endurtekið sig nokkrum sinnum hefur nemandinn, og væntanlega einnig skólafélagarnir, komist að niðurstöðu um að skólinn sé ekki kjörlendi hans. Með hliðsjón af fullyrðingu Hattie (2009) um að samskipti kennara og nemenda séu sá þáttur innan skólastofunnar sem hefur mest áhrif á námsárangur nemenda er slíkt ástand graf alverlegt. Sterkar líkur eru á því að nemandinn verði afhuga námi og hafni gildum skólans (Nordahl,2002). Kannski er það einmitt þess konar reynsla sem skýrir hortugheitin í svip unglingsins sem situr framan við dyr skólastjórans með löngutöng á lofti. Sem betur fer held ég að það hafi dregið mjög úr trú fólks á skömmum. Ég þekki engan sem trúir því í raun og veru að þær hafi bætandi áhrif á hegðun barna. Það er því ekki af umhyggju með barninu sem við skömmum það. Horfumst í augu við að skammir eru fyrst og fremst vísbending um okkar eigin takmarkanir, vísbending um að það sé eitthvað í aðstæðunum sem við ráðum ekki við. Það á jafnt við um okkur sem foreldra og sem kennara. Við erum ólík, sömu aðstæður hafa mismunandi áhrif á fólk. Af einhverjum ástæðum reynir sumt meira á þolrifin í okkur en annað og stundum látum við börnin gjalda fyrir það í stað þess að líta inn á við til að reyna að skilja viðbrögð okkar sjálfra og takast á við þau sem fagmenn eða sem foreldrar. Því við breytum ekki öðrum til batnaðar með skömmum, en með því að breyta okkar eigin viðbrögðum getum við vonandi hjálpað barninu til að breyta hegðun sinni. Skólar sem hafna skömmum Til eru skólar sem hafa það á stefnu sinni að skamma aldrei nemendur en leggja þess í stað alla áherslu á það sem þeir gera vel. Markmið þessara skóla er að stuðla að eflingu nemendanna svo hver og einn upplifi styrkleika sína og mikilvægi sitt í skólanum og í samfélaginu. Heimasíður skólanna eru m.a. notaðar til að benda á það sem vel gengur í skólanum þar eru tilnefndir nemendur vikunnar, bekkur vikunnar auk þess sem foreldrar vikunnar fá hrós og þakkir frá skólanum. Rökstuðningur með vali á nemanda vikunnar í 6. bekk gæti t.d. verið sá að hann hafi skrifað sérstaklega góða ritgerð um rafmagnið. Sá sem er nemandi vikunnar í 1. bekk gæti aftur á móti hlotið heiðurinn fyrir verk sem hann vann í myndmennt. Bekkur vikunnar hefur alltaf mætt á réttum tíma í skólann og foreldrar tiltekins bekkjar fá hrósið fyrir vel heppnaða vettvangsferð sem þeir stóðu fyrir. Það eru ný nöfn á heimasíðunni í hverri viku því allir eiga hrós skilið. Það kæmi mér ekki á óvart þótt þessar heimasíður séu oftar heimsóttar en gengur og gerist og fátt er betur til þess fallið að ávinna skóla traust og virðingu í samfélaginu en nálgun af þessum toga. Í þessum skólum eru nemendur ekki sendir til skólastjóra til að taka við skömmum heldur hrósi og hvatningu fyrir góðan árangur í námi eða í samskiptum. Þegar nemendur gera eitthvað sem ekki er ásættanlegt er rætt við þá og þeim hjálpað til að ígrunda eigin gerðir og þeir studdur til að bæta hegðun sína. Sennilega hafa þessi vinnubrögð áhrif á foreldrana líka og styðja þá til að leggja rækt við uppeldi sem hafnar skömmum en styður við jákvæða hegðun. Geta ekki allir verið sammála um að betra sé að vera barn í slíku umhverfi en þar sem skammir eru algeng uppeldisaðferð?
NKC
Hattie, J. (2009). Sótt í maí 2015 á vefslóðina: http://videnskab.dk/kultur-samfund/dygtige-laerere-er-vigtigst-undervisningen
Nordahl, T. (2002). Eleven som aktør, fokus på læring og handlinger i skolen. Osló: Universitetsforlaget.