Forvitni er þörf fyrir að skoða eitthvað nánar

 ForvitniUmfjöllun Pasi Sahlberg (2014) um mikilvægi forvitninnar í skólanum er umhugsunarverð. Vegna þess ótakmarkaða magns upplýsinga sem umleikur börn, ekki síst fyrir tilstilli netsins, er skólinn komin í samkeppni um athygli þeirra.

Ungur danskur verkfræðinemi og stuðningsfulltrúi, Mikkael Bruun skrifaði nýlega grein um forvitni í skólanum. Þar segist hann telja að skólinn drepi forvitni barna með því að þvinga hana inn í ramma stundaskrárinnar. Hann bendir á að öll börn fæðist forvitin en þegar þau séu komin í menntaskóla sé búið að slæva forvitnina vegna þess að henni sé ekki ætlað það rými sem hún þarfnast. Í menntaskóla vilji nemendur bara fá réttu svörin en kunni ekki lengur að spyrja spurninga. Að hans áliti er forvitni nátengd því að maður spyr spurninga sem maður vill leita svara við. Börnin venjist því hinsvegar smám saman að  spurningarnar eru samdar fyrirfram og það virðist ekki mikilvægt að skilja tilgang spurninganna. Bruun bendir á að börn séu þó ekki alveg hætt að spyrja spurninga í skólanum, vandinn sé að þau spyrji ekki réttu spurninganna. Þau spyrji hvers vegna þau eigi að læra þessa asnalegu námsgrein.

Það er reynsla mín að nútímabörn kunni illa að láta sér leiðast, ef þau sjá ekki fyrir sér tilbúna skemmtidagskrá er viðbúið að þau spyrji fullorða fólkið hvað þau eigi að gera. Það er auðvitað ekki við börnin sjálf að sakast þau hafa alist upp við að fullorðið fólk skipuleggi daginn fyrir þau, sjái þeim fyrir verkefnum og leið þau áfram. Ef engin dagskrá er til þá er auðvelt að grípa til tölvunnar þar sem viðfangsefnin eru takmarkalaus. Það má spyrja að því hvort börn fari ekki á mis við mikið með því að kynnast ekki leiðanum sem gæti e.t.v. orðið hvati að nýjum hugmyndum og rannsóknum.

Þegar ítalski læknirinn og menntafrömuðurinn Maria Montessoi stofnaði fyrsta skólann sinn Casa dei Bambini í Róm í byrjun 20. aldar opnaðist nýr heimur fyrir nemendum, þeir fengu að kynnast aðbúnaði sem var þeim algerlega framandi og vakti áhuga þeirra og forvitni, sérhönnuð húsgögn, trékubbar og marmaraperlur voru gersemar í þeirra augum. Skólinn er ekki lengur staður þar sem börn fá að handleika kennslugögn eða bækur sem þau sjá ekki annars staðar, herbergin þeirra eru full af enn flottari bókum og leikföngum. Miðað við þá hörðu samkeppni sem skólinn á í er eiginlega ótrúlegt hvað mörgum kennurum tekst með hugvitssemi og elju að vekja forvitni og áhuga nemenda sinna.  Dæmi um slíkt eru óþrjótandi, grunnskólanemendur eru að taka þátt í raunverulegum fornleifauppgrefti, þeir setja upp leiksýningar, gera kvikmyndir, framkvæma rannsóknir á umhverfi sínu og skrifa ævintýri og sögur svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru margir kennarar meistarar í að spyrja spurninga sem vekja nemendur til umhugsunar, spurningar þar sem ekkert svar er réttara en annað, spurningar sem vekja enn fleiri spurningar og örva nemendur til umræðna.

Fyrir nokkru sagði reynslumikill kennari við mig að hún gæti ekki lengur gert ráð fyrir að nemendur hennar sinntu námi sínu af hlýðni einni saman hún yrði að sjá þeim fyrir viðfangsefnum sem vektu raunverulega forvitni þeirra og það væri ekki alltaf auðvelt. Niðurstaða mín er sú að líklega hefur aldrei verið jafn krefjandi að vera kennari og nú og full ástæða til að bera djúpa virðingu fyrir þeim sem tekst að vekja forvitni nemenda og viðhalda áhuga þeirra.

NKC

Heimild

Sahlberg, P. (2015). Finnish Lessons 2,0. What can the world learn from educational change in Finnland? New York: Teachers Collage Press, Colombia University.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s