Frumkvöðlar og fjölmenning

IMG_4274 (1)Fyrr í haust fékk ég tækifæri til að fylgjast með og taka þátt í störfum nefndar á vegum Evrópuráðsins sem kom í heimsókn til að meta stöðu Reykjavíkurborgar sem fjölmenningarlegrar borgar. Tildrög heimsóknarinnar voru þau að síðastliðinn vetur sótti Reykjavíkurborg um að fá viðurkenningu sem fjölmenningarborg Evrópu og ganga þar með í hóp sextíu og fjögurra borga innan og utan Evrópu sem hafa sameinast um það markmið að bæta borgarsamfélag sitt og nýta til góðs þann kraft og þekkingu sem býr í fjölbreyttum einstaklingum. Á heimasíðu Evrópuráðsins  má lesa nánar um verkefnið.
Eitt af því sem skoðað er í tengslum við verkefnið er sú stefnumótun og þau markmið sem sett eru varðandi skólastarf og menntun fjölbreyttra barnahópa í þátttökuborgunum.  Í fyrstu úttekt nefndarinnar sem unnin var á sumarmánuðum kom borgin ágætlega út í samanburði við aðrar borgir varðandi menntunarmál og tungumálastefnu en má gera betur í ýmsu s.s. eins og móttöku nýrra íbúa.

Einn af þremur fulltrúum evrópunefndarinnar er bretinn Phil Wood sem unnið hefur að samfélagsþróun í stjórn sambands breskra sveitarfélaga. Wood, sem kallar sig borgarsálfræðing (e. Urban Therapist) er upphafsmaður verkefnisins og hefur m.a. skrifað bókina „The Intercultural City, planning for diversity advantage“ . Það sem mér finnst einna mest heillandi við verkefnið og hugmynd Wood er sú áhersla sem lögð er á að kortleggja og skoða jákvæðar og góðar fyrirmyndir sem borgir og um leið skólar, geta nýtt sér í tengslum við þróun fjölmenningarlegs samfélags. Wood leggur áherslu á að með samræðum og samstarfi á milli nýrra íbúa og þeirra sem fyrir eru sé hægt að koma í veg fyrir mörg af þeim vandamálum sem margar borgir samtímans glíma við og tengjast oftast skorti á samskiptum og skilningi. Í þessu samhengi bendir Wood á að gagnlegt geti verið að horfa til alþjóðlegra fyrirtækja sem hafa náð árangri á heimsvísu með nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi en ein mesta auðlind þeirra er fólgin í þeim fjölbreytta mannauði sem þau sækjast eftir að ráða til sín og virkja í starfsemi sinni.

Í fréttum Ríkissjónvarpsins 18. október var viðtal við Wood þar sem hann lýsir þeim miklu áhrifum og krafti sem hann upplifði í heimsókn sinni í Fellaskóla. Wood telur það ákveðinn kost fyrir Reykvíkinga og um leið skólasamfélagið að hafa byrjað frekar seint á móttöku innflytjenda miðað við aðrar borgir því þannig sé hægt að læra af mistökunum sem hafi verið gerð víða. Wood sagðist skynja „andrúmsloft umhyggju og hlýju“ í Fellaskóla auk þess sem menntunin þar virtist vera úrvalsgóð. Í sjónvarpsviðtalinu lagði Wood áherslu á að Reykjavíkurborg geti gert miklu betur í að taka á móti nýjum borgurum og greiða þeim götuna fyrstu vikurnar í nýju landi en nú er gert og vísaði þar í niðurstöður fyrstu úttektar. Varhugavert sé að láta innflytjendur afskipta því það leiði af sér að fólk fari að lifa út af fyrir sig en slíkt komi í veg fyrir samskipti og gagnkvæman skilning á fjölbreyttri menningu. Hvað skólakerfið varðar segir Wood þó að ef farið verði eins að á fyrstu skólastigunum á Íslandi og hann hafi upplifað í heimsókn sinni í Breiðholtið sé líklegt að Íslendingar eigi eftir að uppskera ríkulega.

Síðastliðinn vetur var mótuð ný stefna um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf í Reykjavíkurborg. Stefnan sem ber heitið Heimurinn er hér var samþykkt samhljóða í skóla- og frístundaráði og síðar borgarráði sem gefur góðar vonir um innleiðingu stefnunnar sem á að vera lokið 2017. Í stefnunni er lögð áhersla á að þróa fjölbreytta starfs- og kennsluhætti til að mæta fjölbreyttum barna- og foreldrahópi ásamt því að nýta þekkingu, á tungumálum og menningu til viðbótar við þá íslensku, sem auðlind fyrir skólasamfélagið.  Leiðarljós stefnunnar er að öll börn og ungmenni nái árangri í námi og leik, standi vel að vígi félagslega og verði sköpuð tækifæri til að vera stolt af bakgrunni sínum og menningu. Fjölmenningarstefna borgarinnar í skóla- og frístundastarfi er þannig í góðum takti við áherslur verkefnisins Fjölmenningarborgir. Hvað framhaldið varðar er gagnlegt fyrir okkur að horfa til þeirra jákvæðu fyrirmynda sem við höfum í Fellahverfinu og öðrum skólum sem staðið hafa vel að móttöku, aðlögun og menntun fjölbreyttra barnahópa. Til viðbótar veitir þátttaka í verkefninu Fjölmenningarborgir okkur aðgang að þekkingu og verkfærum sem geta hjálpað til við að nýta þann kraft og möguleika til nýsköpunar sem fylgir fjölbreyttum einstaklingum bæði í samfélagi skólans og samfélagi borgarinnar.

Fríða B Jónsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s