Hjartað í kennslunni

hallakAllt frá árinu 2005 hefur verið virkur hópur í Menntaskólanum við Sund sem kenndur er við starfendarannsóknir eða „Action reasearch“. Hópurinn hittist reglulega undir leiðsögn sérfræðings um starfendarannsóknir og ræðir þau rannsóknarefni sem hver og einn hefur kosið að rýna í. Þessi hópur hefur tekið virkan þátt í ráðstefnum um starfendarannsóknir bæði hérlendis og erlendis og staðið fyrir kynningum og greinaskrifum um þessa rannsóknaraðferð. Fundir hópsins hafa skapað mikilvægan vettvang fyrir umræðu um ýmsar nýjungar í kennsluháttum þvert á námsgreinar og hefur þetta starf m.a. stuðlað að aukinni þverfaglegri samvinnu innan skólans.

Margir kennarar þekkja núorðið starfendarannsóknir af eigin raun og í pistli sem Hjördís Þorgeirsdóttir, konrektor í Menntaskólanum við Sund skrifaði á vef  KÍ nýlega er ágæt lýsing á þessari aðferð við að rannsaka eigið starf. Í stuttu máli getur starfendarannsókn byggst á að kennari velur sér viðfangsefni sem tengist kennslunni, skoðar á gagnrýninn hátt, safnar gögnum, skráir dagbókarfærslur, ígrundar og fundar með samstarfsfólki eða bandamanni til að fá viðbrögð, stuðning og umræðu um rannsóknarefnið. Þannig safnast upp á markvissan hátt hagnýt reynsluþekking fyrir kennarann. Þessi þekking er eðli sínu samkvæmt síbreytileg og kvik enda er innbyggt í aðferðafræði starfendarannsókna að ferlið sjálft sé ekki síður mikilvægt en niðurstaðan.

Ég hef frá upphafi verið hluti af þessum rannsóknarhópi og gert mér far um að flétta þessari rannsóknaraðferð inn í starf mitt sem íslenskukennari í Menntaskólanum við Sund. Markmið mitt hefur ávallt verið að leita sífellt nýrra leiða til að gera nemendur virkari, ábyrgari og um leið skapandi þátttakendur í eigin námi. Ég hef stundum kallað þá rýni og ígrundun sem í starfendarannsóknum felst „þriðja augað“ í kennslunni og aðferðin hefur hjálpað mér við að byggja upp traust samskipti við nemendahópinn og breytt kennsluháttum mínum á ýmsan hátt.

Frá því að ég byrjaði að rýna á markvissan hátt í starf mitt hef ég lagt mig eftir því að safna saman alls kyns gögnum frá nemendum t.d. svörum þeirra við ýmsum opnum spurningum um námsefnið og kennsluna. Þannig skapaðist rými til frjálslegri umræðu um námið og kennsluna en áður hafði tíðkast og með því að safna markvisst saman viðhorfum, hugmyndum og skoðunum nemenda fékk ég nýtt sjónarhorn á kennsluna sem hefur breytt ýmsu bæði í kennslu og námsmati. Þarna opnuðust augu mín fyrir því hversu ómetanlegt er að sýna nemendum traust, beina sjónum að námsferlinu sjálfu og gefa nemendum tækifæri til að tjá sig um námið og námsefnið en einblína ekki alfarið á að koma þekkingu eða hæfni til skila í samræmi við markmið í kennsluáætlun og námskrá.

Ég hef safnað saman alls kyns efni frá nemendum, svörum við spurningum og verkefnaúrlausnum, textsýnishornum og frumsömdum ljóðum og nýtt beinlínis sem kennslugögn og þróað breyttar kennslu- og námsmatsaðferðir út frá þessum gögnum. Nemendur hafa jafnvel fengið tækifæri til að semja prófspurningar sem hafa verið nýttar t.d. í krossaprófum. Á þennan hátt hafa nemendur fengið aukna hlutdeild í kennslunni og orðið virkir og skapandi þátttakendur í náminu og ég fengið betri tilfinningu fyrir námshópnum hverju sinni. Aðferðin virkar því í báðar áttir. Ég hika ekki við að fullyrða að þessi rannsóknaraðferð að safna saman gögnum frá nemendum, rýna í þau, ræða við samkennara og nýta síðan til að þróa kennsluaðferðir sé eitt mikilvægasta verkfæri sem ég hef fengið upp í hendurnar kennslustarfinu. Sjálft hjartað í kennslunni.

Halla Kjartansdóttir, framhaldsskólakennari við Menntaskólann við Sund

Greinin birtist áður á vef KÍ

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s