Hallelúja, hallelúja! Misskildir jólasálmar og fleiri jólaminningar

Í jólablaði Norðurslóðar birtist þessi bráðskemmtilega grein eftir ritstjórann Hjörleif Hjartarson. Hann hefur góðfúslega heimilað birtingu hennar hér í Krítinni.

tjornMargt var með öðru sniði þegar ég var barn og jólin þar á meðal. Jólahald á Íslandi hefur vissulega breyst mikið frá því laust eftir miðja síðustu öld þegar ég var að slíta  barnsskónum heima á Tjörn.  Líklega hefur þó stærsta breytingin átt sér stað innra með mér sjálfum.

Maður hefur jú breyst töluvert frá þessum björtu skammdegisdögum bernskunnar þegar jólaljósaserían var tekin úr kassanum á Þorláksmessu og allt varð heilagt um leið og stungið var í samband. Orðið „heilagt“ var auðskilið og næstum því áþreifanlegt í þessu ljósi. Miklu auðskildara en margt annað sem bar á góma á jólunum.

Það fylgir því nefnilega að vera barn að maður leggur annan, og á margan hátt dýpri, skilning í hlutina en síðar verður á ævinni. Í bernskunni er alls staðar rúm og tími fyrir furður og ævintýri, og landamærin á milli draums og veruleika ekki svo nákvæmlega kortlögð.

Á unglingsárunum tók hið kalda flúorljós rökhyggjunnar að flæða inn í flest skúmaskot og varpa afhjúpandi birtu sinni á raunverulegt eðli hlutanna. Ævintýrin reyndust þá ekki bara hversdagsleg og laus við galdur heldur beinlínis kjánaleg. Margt það besta og æsilegasta við jólin var byggt á víðtæku samsæri hinna fullorðnu og alls ekki sársaukalaust þegar sá mikli blekkingavefur var afhjúpaður.

Hann sá þig!

Önnur ævintýri voru í besta falli byggð á misskilningi. Orðin þýddu annað en maður hélt. „Hann sá þig. Hann sá þig“  hann Adam sem átti synina sjö, og það var eitthvað magnað og gott við það að hann skyldi hafa séð mann í gegn um þokuhjúp aldanna. Og þess vegna hneigði maður sig eins og kínverji þegar kom að þessu atriði á jólaballinu.

Löngu síðar upplýstist að Adam var þarna við landbúnaðarstörf – sáningu – sem er auðvitað ekki góð búmennska á milli jóla og nýárs en þar með varð líka þessi kínverska hneiging algerlega út í hött.

Jólasálmarnir eru svo alveg kapítuli út af fyrir sig. Ég er enn að fatta raunverulega merkingu algengustu jólasálmanna.  Í miðri jólamessu verð ég skyndilega lostinn nýjum skilningi á ljóðlínu sem í meir en hálfa öld hefur haft allt aðra meiningu fyrir mér.

Nokkrir jólasálmar eru ævinlega sungnir í öllum jólamessum og mynda þannig nokkurs konar úrvalssveit á meðal almennu og óbreyttu jólasálmanna. Þetta eru Heims um ból, Í dag er glatt og Í Betlehem er barn oss fætt.  Það er með þá eins og Gamla Nóa eða Litlu andarungana – maður man ekki eftir að hafa lært þá, heldur hefur bara alltaf kunnað þá. Allar götur síðan ég sat barnungur á hörðum kirkjubekkjum Tjarnarkirkju og taldi stjörnurnar í loftinu, fylgdist gaumgæfilega með nývaknaðri fiskiflugu fljúga umhverfis höfuðið á séra Stefáni eða var lagstur á gólfið og skoðaði lappirnar á kirkjugestum til að fá tímann til að líða á meðan kirkjukórinn með mömmu og pabba og afa innanborðs, söng hvern sálminn á fætur öðrum. Þarna var það sem  orðin settust einhvern veginn og alla vega í unga heilaklístrið á meðan ég var að hugsa um eitthvað annað. Og enn þann dag í dag er ég að tosa þessi orð djúpt upp úr heilabúinu og fá þau til að taka á sig einhverja merkingu.

Heims um ból

Það er nú engin furða að ég hafi ekki skilið mikið í „Heimsumbólinu“ á mínum uppvaxtarárum undir kirkjubekkjunum. Líklega er þetta eitt torskildasta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu frá tímum dróttkvæðanna og þarf nánast íslenskufræðing til að skilja það og skýra út fyrir venjulegu fólki. En þessi myrki stíll Sveinbjarnar Egilssonar  gaf ungu ímyndunarafli mínu vissulega lausan tauminn.

Upphafsorðin – Heims um ból – tengdi ég lengi við sundbol og sá fyrir mér konu í sundi í skammdeginu.  Það var líklega þessi Signumær. Parísardama að synda í Signu í heimssundbolnum sínum til frelsunar mannkyninu – Líklega hefur þetta verið áheitasund, enda fer engin kona að synda í Signu í svartasta skammdeginu nema þá í áheitasundi og fyrir ekki minni málstað en frelsun mannanna.

En það var sólskin. Svo mikið skildi ég. Son Guðs sól skein lágt á skammdegishimninum yfir ána Signu sem eðlilegt var að kalla frelsisins lind í tilefni af áheitasundinu sem þar fór fram þennan dag.

En þá fór nú gamanið að kárna. Frumglæðir ljóssins sem gjörvöll mannkind meinvill í myrkrunum lá. Hvað svo sem „frumglæðir“ þýddi þá hafði þessi setning augljóslega eitthvað með villtar kindur að gera – villifé.  En hvað þær voru að gera á Signubökkum á meðan þar stóð yfir áheitasund til frelsunar heimsins gat ég ómögulega skilið. Og af hverju var  allt í einu komið myrkur? Einhver Meinvill lá þarna í myrkrinu.Var ekki nýbúið að segja að það væri sólskin?

Svo byrjaði annað erindið og allt varð skyndilega auðskilið. Heyra má himnum í frá englasöng Hallelújá. Þetta þurfti engrar skýringar við. Allt þetta Hallelúja og hósíanna í sálmabókinni taldi ég staðfestingu á því að englar töluðu sérstakt tungumál og engin ástæða til að örvænta yfir því þó ekki væri allt skiljanlegt sem þeir legðu til málanna. Sjaldnast var það nú annað eða merkilegra en þetta gamla „Hallelúja“ og stundum einstaka „hósíanna“. Þannig gat maður líka afgreitt ýmis önnur torskilin orð og flest það annað sem maður ekki skildi í sálmabókinni. Fús þeim að líkna sem tilreiðir sér samastað syninum hjá = óskiljanlegt englamál.

Síðasta erindið byrjaði vel eins og miðerindið: Heimi í hátíð er ný. Himneskt ljós lýsir ský. Já já, allt í lagi með það. En  svo versnaði í því: Liggur í jötunni Lávarður Heims! Var þetta ekki jatan hans Jesú litla? Hvað var þá þessi Lávarður Heims að gera þar? Kom hann með vitringunum eða fjárhiðunum? Og varð bara að leggja sig? Í jötunni!!? Ég vonaði heitt og innilega María hefði tekið hann Jesú litla upp úr jötunni áður en Lávarður Heims lagðist í hana. Jú líklaga hafði hún gert það. Alla vega virtist Lávarður þessi liggja þarna með fullu samþykki Maríu og Jóseps. Já sjálfsagt var hann bara svona þreyttur.

Lifandi brunnur hins andlega seims. Þetta skildi ég ekki þá og skil raunar ekki enn þann dag í dag. Jú ég skildi að það þyrfti að vera brunnur í gripahúsum. En hitt var allt á óskiljanlegu englamáli.

Svo mikið hafði ég þó skilið í erindunum á undan að einhvers staðar hafði leikurinn borist frá Signubökkum niður á Betlehemsvelli og inn í litla fjárhúsið þar sem einhver Lávarður Heims var lagstur uppí jötuna hans Jesús.

En af hverju fékk hann að liggja í jötunni? Jú skýringin kom í síðustu línunni: Hann var kóngur. Auðvitað – Konungur lífs vors og ljós. Og var boðið upp á allt það besta í fjárhúsinu.

Í dag er glatt.

Sálmurinn Í dag er glatt í döprum hjörtum var af allt öðrum toga en Heimsumbólið. Þar var sögð heilmikil saga af miklum þrótti og hressleika og óþarfi að láta sér leiðast undir henni. Strax í fyrsta erindinu var atburðarásin orðin æsileg. Friðarengill birtist í vetrarstormi og flutti mikinn fögnuð. Það var ekkert loðið í því.

Í öðru erindinu kom svo þessi hending: Sá Guð sem ræður himni háum, hann hvílir nú í dyrastalli lágum. Ég skildi að þarna var verið að tala um Jesúbarnið og ég sá fyrir mér að Jósep og María hefðu farið með jötuna út á dyraþrepið í fjárhúsinu af því að það var svo mikill gestagangur að þau höfðu varla undan að fara til dyra, fyrst hirðarnir, síðan vitringarnir og gott ef ekki allir himnesku herskararnir líka. Fyrr má nú vera. Auðvitað komst þetta lið ekki allt fyrir í litlu fjárhúsi og rökrétt að fara bara með jötuna út á dyraþrepið til að taka á móti heillaóskum og blessunarorðum, gulli, reykelsi og myrru.

En þessi skilningur minn hrundi eins og spilaborg ekki alls fyrir löngu þegar ég uppgötvaði að þetta var ekki dyrastallur heldur dýrastallur!

Og hvað er nú dýrastallur spyr maður? Jú það er vísast danska  – en dyrestald – og á líklega að vera gripahús eða fjárhús. Ja Valdimar Briem gastu ekki komið með eitthvað betra? Ég sting upp á „fjárhúskofa lágum“ eða „kindakofa lágum“.

Svo voru reyndar tveir aðrir staðir í þessum sálmi sem ég velti nokkuð fyrir mér.  Af umhyggjusemi fyrir Jesúbarninu fannst mér eftirfarandi háttarlag nokkuð áhyggjuefni: Hann fjötrum reifa fast er vafinn!  Mér fannst það einhvern veginn ekki líkt Maríu mey að búa svona um Jesúbarnið, að reifa hann fast í fjötra! Og ég vonaði það þetta væru ýkjur.

Undir lok sálmsins kom svo annar staður sem ég hnaut líka stundum um. Ekki þó af umhyggjusemi við Jesúbarnið heldur af því ég skildi hann ekki almennilega: Á meðan tungan má sig hræra!?

Ég velti fyrir mér hvernig þessi athöfn færi fram og þá ekki síður; í hvaða tilgangi?  Ég gerði meira að segja tilraunir með mína eigin litlu tungu og taldi mig raunar nokkuð vel af guði gerðan til að hræra með henni þar sem ég var sá eini í minni fjölskyldu sem náði upp í nefið á mér með tungunni. En hvað slíkar tunguæfingar kæmu jólunum við að öðru leyti átti ég bágt með að fá nokkurn botn í.

Í Betlehem er barn oss fætt

Allt aðra sögu var að segja af sálminum Í Betlehem er barn oss fætt. Þar skildi ég flest – já nánast allt, enda framvindan mjög hæg og allt útskýrt í þaula. Raunar allt, allt of hægt.  Þar var vandamáluð með Í Betlehem er barn oss fætt. Meira að segja nafnið á sálminum var langt og tók töluverðan tíma að tína það allt út úr sér.

Söguþráðurinn var ekki einasta rýr og allt of hægur og endurtekningasamur heldur var stöðugt verið að rjúfa hann með englakvakinu góðkunna  – Hallelúja hallelúja. Eftir tvær línur kom hallelúja, hallelúja, sungið hægt og slitrótt. Svo komu aðrar tvær línur og þá aftur hallelúja, hallelúja. Svona gekk þetta lengi lengi. Í heil níu erindi – átján hallelúja í einum sálmi.  Og allt á hraða snigilsins! Ég var margsinnis búinn að telja stjörnurnar í kirkjuloftinu, telja kirkjugesti og telja kórinn áður en lagið var hálfnað.

Þegar ég var örlítið stálpaðri velti ég stundum fyrir mér hvort ekki mætti fá meira fútt í sálminn t.d. með því að byrja lágt og hækka svo um einn tón við hvert erindi. Þegar ég nú blæs rykið af þessum gömlu minningum finnst mér þetta enn nokkuð góð hugmynd. Ég sting henni hér með að kórstjórum landsins. Ég er ekki frá því að hún gæti aukið verulega kirkjusókn í landinu um hátíðirnar. Ég heyri fyrir mér kirkjukórinn hækka sig við hvert erindi, kórlimina springa á limminu einn af öðrum, bassana í;  Laaaagður lágt!! og ölturnar í; Viiititringar!!, þar til einn skær tenór stendur eftir í; Þér Guð sé lof fyrir gleðileg jól, og er fagnað sem sigurvegara af kirkjugestum.

Og talandi um lokaerindið þá má ég til með að skjóta því hér að, að í huga mínum undir kirkjubekknum forðum hljómaði lokalínan svona; Og Guði sé lof fyrir að þessi sálmur skuli nú loksins, loksin vera að klárast.  Hallelúja, hallelúja!

Gleðileg jól

Hjörleifur Hjartarson

2 athugasemdir við “Hallelúja, hallelúja! Misskildir jólasálmar og fleiri jólaminningar

  1. Bakvísun: Vinsælustu póstarnir 2013 | Krítin·

  2. „Barn í jötu borið var“ fannst mér alltaf svo skelfilegt og sá fyrir mér Jósef smið vera að bora með gamaldags borvél í blessað barnið ljúfa kæra!

    Og afhverju að hræra með hrærivél ofan í vöggu barnsins?!! 😀

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s