Stundum heyrir maður eitthvað sem virðist svo sjálfsagt að maður skilur ekki að það skuli koma manni á óvart. Þannig varð mér við þegar ég heimsótti skóla einn í Englandi fyrir skömmu. Viðkomandi skóli er staðsettur í félagslega afar veikburða samfélagi en engu að síður ná nemendur einstaklega góðum árangri í námi sínu. Í umfjöllun sinni um skólastarfið sagði skólastjórinn frá því að þegar ný börn byrjuðu í skólanum væri fyrsta og mikilvægasta áskorunin sú að búa til góða nemendur úr þeim. Ég verð að játa að ég hafði aldrei hugsað í þessum dúr. Hér áður fyrr leit ég eiginlega frekar þannig á að börn ættu að koma nægilega skólaþroska í skólann til að geta nýtt sér starfið sem þar fer fram. Hugmyndafræði umrædds skóla er allt önnur „Við gefum okkur hálfan mánuð til að kynnast hverju nýju barni einkum með það í huga að finna styrkleika þess. Þegar við vitum hverjir styrkleikarnir eru þá getum við búið til góða nemendur úr öllum börnum,“ sagði skólastjórinn. Eins og gefur að skilja eru styrkleikar barnanna mismunandi en allir styrkleikar eru mikilvægir og úr þeim efnivið er nýr nemandi reistur. Með því að gera fyrstu skrefin í skólanum að sigurgöngu hvers barns eru allar líkur á því að viðhorf þess til skólans og námsins verði jákvæð og það sem er mikilvægast af öllu þau fara sjálf að líta á sig sem góða nemendur. Með þá sjálfsmynd er spennandi að takast á við áskoranir og jafnvel að yfirstíga erfiðar hindranir.
Ég get auðvitað ekkert fullyrt um það hversu algengt það er að skólafólk hugsi svona en því miður held ég að við kennarar séum stundum of upptekin af veikleikum nemenda okkar. Við veitum jafnvel frekar athygli því sem þeir geta ekki en því sem þeir geta, líkt og við á í hinni kunnu dæmisögu um Skóla dýranna . Í skólanum sem hér um ræðir er áhersla lögð á það að kennararnir séu alltaf vakandi fyrir öllu sem nemendur gera vel og að þeir veki athygli á því.
Eins og gefur að skilja gengur ekki alltaf allt að óskum í stórum skóla og líkt og annarsstaðar ná ekki allir nemendur alltaf þeim árangri sem stefnt var að og stundum er hegðun einhverra nemenda óásættanleg. Jafnvel þá er ekki leitað skýringa í veikleikum barnanna, heldur í veikleikum skólans. Starfsfólkið spyr sig hvað það hafi gert rangt og hverju það geti breytt til að nemandinn nái að sýna styrkleika sína og njóta þeirra.
Stundum virðist þurfa svo lítið til að breyta miklu. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að tileinka sér ákveðin viðhorf og nær ósjálfrátt verða til viðeigandi vinnubrögð, þau þurfa ekki að kosta mikið.
NKC
Bakvísun: Mikilvægast að finna styrkleika hvers barns·