Stundum sýna börn meiri þroska en fullorðið fólk, eins og kom í ljós um daginn þegar kunningjakona mín var að sækja 7 ára dótturdóttur sína í ballett. Þegar þær voru að koma sér fyrir í bílnum varð ömmunni á að segja: Er hún ekki heldur þykk þessi til að vera í ballett? Og vísar til stúlku sem var á leið úr balltetíma. Sú stutta horfði beint fram fyrir sig um leið og hún svaraði ákveðin: Ég tek nú ekki þátt í svona. Kunningjakona mín minnist þess ekki að hafa skammast sín jafn mikið í langan tíma. Líklega má þakka viðbrögð stúlkunnar því að í skólanum hennar hefur verið unnið markvisst með samskipti barnanna og staðreyndin er sú að undanfarin ár hefur orðið mikil vitundarvakning í skólum sem skilar sér í minnkandi einelti og því ber að fagna.
Umfjöllun fræðimanna um einelti beinist í æ ríkari mæli að því að skoða einelti sem félagslegt fyrirbæri fremur en vandamál einstaklinga. Það að reyna að skilja og skilgreina einkenni þolenda eða geranda skiptir kannski ekki mestu máli heldur hitt að það þróast ólík samskiptamynstur í hópum sem þarf að skoða í heild sinni í stað þess að beina allri athyglinni að ákveðnum einstaklingum. Þegar þolmörkin í samskiptum eru víð getur mikið þurft að ganga á áður en umhverfið bregst við. Til að hindra að einelti verði til er því mikilvægt að stuðla að því að hópurinn hafi sameiginlegan skilning á því hvað séu ásættanleg samskipti svo allir geri sér grein fyrir hvar á að setja mörkin.
Dæmi um það þegar hópur setti félaga sínum mörk er frásögn sem ég las á danska vefnum skoleportalen.dk – en yfirskriftin er: Mobning et socialt og relationelt fænomen. Þar segir frá Bertram sem lengi hafði komist upp með að skapa ótta og kvíða meðal bekkjarfélaga sinna m.a. Piu án þess að tekið hefði verið á því, einkum vegna þess að bekkurinn hafði tileinkað sér einskonar hlutleysi gangvart hegðun hans. Einn daginn mætti Bertram með hníf í skólann. Hann gekk um í stofunni og stakk hnífnum í borð og endaði með því að ota honum að maganum á Piu og ógna henni. Nú var hinum bekkjarfélögunum nóg boðið og þeir stöðvuðu hann. Bertram setti hnífinn í skólatöskuna með þeim orðum að hann hafi bara verið að grínast, en í huga krakkanna hafði Bertram farið yfir mörkin. Þau fóru niður á skólaskrifstofuna og sögðu kennaranum frá því sem hafði gerst. Þetta var bæði í fyrsta og síðasta skipti sem Bertram kom með hníf í skólann vegna þess að af viðbrögðum bekkjarfélaga sinna hafði honum skilist að hann hafði gengið of langt. Það þurfti raunar ekki meira til.
Við erum örugglega öll sammála um að Bertam hinn danski hafi gengið allt of langt, en sagan segir okkur fyrst og fremst að í heilbrigðu samfélagi eru alltaf einhver mörk sem hópurinn sættir sig ekki við að farið sé yfir. Ef hægt er að fá börn til að bregðast við á svipaðan hátt þegar einelti er í uppsiglingu verður miklu erfiðara fyrir eineltið að festa rætur.
Kjarni málsins er sá að það geta verið margar ástæður fyrir því að barn leggur aðra í einelti og oft er flókið að skilja hvað liggur að baki og kannski er ekki alltaf nauðsynlegt að gera það. Það sem skiptir máli er að yfirleitt kemst enginn upp með einelti nema hinir í hópnum sætti sig við það eða styðji það.
Viðbrögð litlu ballerínunnar, sem ég sagði frá í upphafi, vekja vonir um að það sé hægt að kenna börnum að setja mörk og að samskipti þeirra verði jafnvel þroskaðri en fyrri kynslóða. Kannski hafa þau bara betri kennara.
NKC