Hvernig á að flokka börn?

winnerwUmfjöllun Vöndu Sigurgeirsdóttur lektors við MVS HÍ um getuskiptingu barna í hópíþróttum vakti töluverða athygli í vikunni, en hún álítur getuskiptingu geta haft slæmar afleiðingar fyrir þau börn sem ekki eru talin nægilega góð í íþróttinni. Sjálfsmynd þeirra bíði hnekki og þau séu líkleg til að missa áhugann á íþróttastarfinu. Aðrir hafa mótmælt og fullyrt að það sé þessum börnum einmitt fyrir bestu að æfa og keppa með jafningjum. Það felist niðurbrot í hinu.

Í vikunni heyrði ég athyglisvert viðtal um svipað efni í morgunútvarpi Rásar 2 við Jónu Benediktdóttir aðstoðarskólastjóra á Ísafirði,  sem í meistaraprófsrannsókn sinni skoðaði viðhorf nokkurra karlmanna af upplifunum sínum af sérkennslu á grunnskólaárunum. Sem drengir höfðu þeir upplifað mikið niðurbrot við að þurfa sífellt að standa upp frá borðum sínum í kennslustofunni til að ganga út með sérkennaranum. Síðar voru þessir drengir settir í sérbekk og fengu þá endanlega staðfestingu á að þeir væru vitlausir og gengust upp í að uppfylla þær væntingar með hegðun sinni. Sérbekkurinn var að þeirra mati í besta falli gagnslaus en í versta falli skaðlegur. Upplifun mannanna var sú að þeir hefðu fyrst og fremst verið fjarlægðir úr bekkjum sínum til að hinir fengju betri frið. Þeir voru með öðrum orðum truflun, skaðvaldar.

Það er ekki langt síðan ég frétti af dreng sem sneri aftur til skólans síns hér á landi eftir að hafa dvalið tvö ár í Danmörku með foreldrum sínum. Fljótlega áttaði kennarinn sig á að drengurinn hafði dregist verulega aftur úr í námi og jafnframt kom á daginn að hann kunni litla sem enga dönsku. Við nánari athugun kom í ljós að í Danmörku var hann settur í móttökubekk með öðrum innflytjendum. Flestir bekkjarfélagar hans komu frá Sómalíu, þeir héldu hópinn og töluðu hvorki dönsku né ensku en nokkrir bekkjarfélagar hans gátu bjargað sér á lélegri ensku. Hann umgekkst því fáa jafnaldra fyrir utan nokkur íslensk börn sem bjuggu í sömu borg og hann hitti stöku sinnum. Það var mat viðkomandi skólayfirvalda í Danmörku að það væri öllum innflytjendabörnum fyrir bestu að vera saman í móttökubekk. Var kannski verið að hugsa um velferð einhverra annarra?

Eins langt aftur og ég man höfum við  flokkað börn og fólk oft undir því yfirskini að það sé þeim fyrir bestu. Það er ekkert mjög langt síðan hörundsdökk börn og ungmenni í Bandaríkjunum máttu ekki ganga í sömu skóla og þau sem voru með ljósari húð. Lengst af þótti flestum þetta fyrirkomulag sjálfsagt. Því var haldið fram að of mikið skildi þessa hópa að og að lík börn leiki best. Jafnvel sumir blökkumenn héldu þessu fram. Það má endalaust finna svipuð dæmi, mennirnir virðast eilíft geta réttlætt að það sé heppilegt að flokka fólk eftir litarhafti, greind, uppruna, áhugasviðum, líkamlegu atgerfi, hæfileikum, kynferði,  menntun, útliti, trúarbrögðum, búsetu, lífsgildum, efnahag, stjórnmálaskoðunum o.s.frv. Stöðugt er einblínt á það sem skilur okkur að fremur en allt hitt sem við eigum sameiginlegt, því venjulega er það miklu meira. Viljum við hafa þetta svona? Viljum við að það sem okkur skortir eigi að vega þyngra en það sem við höfum? Viljum við ala börnin okkar upp í því að samfélagið sé fyrst og fremst fyrir suma og það sé hinum fyrir bestu að vera annarsstaðar? Er yfirleitt hægt að réttlæta að það sé einhverju barni fyrir bestu að fá þau skilaboð að það sé ekki nægilega rétt sett saman til þess að fá að vera með?

Fyrir utan fjölskylduna hefur engin stofnun  jafn mikil tækifæri til að innleiða samfélag framtíðarinnar og skólinn. Þar starfa öll börn flesta daga, árum saman, undir handleiðslu vel menntaðs fagfólks. Það er alls ekki einfalt að kenna fjölbreyttum hópi barna og afar ólíklegt að sömu kennsluaðferðir, sama námsefni og sömu markmið henti þeim öllum. Þess vegna m.a. eru góðir kennarar svo einstaklega dýrmætir í samfélagi margbreytileikans.

NKC

One response to “Hvernig á að flokka börn?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s