Hvernig liði þér ef þú sætir í flugvél og flugstjórinn tilkynnti í hátalarakefið að hann ætlaði að gera sitt besta til að fljúga vélinni á áfangastað? Eða ef læknir, sem ætlar að fjarlægja botnlangann úr syni þínum eða dóttur, segði þér að hann muni gera sitt besta til að sjúklingurinn lifi aðgerðina af? Væntanlega myndu þessar upplýsingar hreint ekki bæta líðan þína, heldur þvert á móti virka sem yfirlýsing um ákveðin takmörk flugmannsins og læknisins, og þá um leið einhverskonar uppgjöf þeirra.
Þetta eru dæmi um það sem Carol Dweck nefnir „fixed mindset“ (hugarfar stöðugleika) og felst í því að við lítum á greind eða hæfni sem meðfæddan óbreytanlegan fasta. Við erum bara svona og höfum aðeins takmarkaða möguleika til að breyta því. Við viðhöldum hugmyndinni um stöðugleikann með því að segja eða hugsa; það er nú ekki við því að búast að þú getir þetta, þú ert nú lesblindur, með athyglisbrest eða eitthvað annað. Af nægu er að taka. Á sama hátt viðhöldum við hugarfari stöðugleika þegar við hrósum börnum fyrir að vera klár, jafnvel svo klár að þau séu með topp einkunnir án þess að líta í bók.
Andstæðan við „fixed mindset“ (hugarfar stöðugleika) er „growth mindset“ (hugarfar vaxtar) en í því felst að við lítum á greind og hæfni sem eitthvað sem hægt er að auka með viðeigandi aðferðum á sama hátt og hægt er að bæta þrek með því að æfa hlaup eða styrk vöðva með lyftingum. Þeir sem þekkja til rannsókna John Hattie, sem fjallað hefur verið um hér í Krítinni, vita að væntingar kennara til nemenda og viðhorf nemendanna sjálfra til eigin árangurs er það sem hefur mest áhrif á námsárangur þeirra. Að mati Dweck þá öðlast nemendur sem fá hrós og hvatningu fyrir að leggja sig fram, jafnvel þó afraksturinn sé ekki 100%, dýrmætara uppeldi en hinir sem fá hrós fyrir árangur sem þeir hafa lítið sem ekkert þurft að hafa fyrir. Nemendur sem búa yfir hugarfari vaxtar stunda nám sitt með því hugarfari að þeir geti aukið greind sína, þeir fagna þess vegna áskorunum, gefast ekki upp við mótlæti, eru óbangnir við að gera mistök, vegna þess að þeir læra af þeim og þeir nýta sér gagnrýni. Þessi nálgun er ein af megin undirstöðum þess leiðsagnarmats sem Shirley Clarke hefur skilgreint og sett fram sem aðferðafræði og margir skólar austan hafa og vestan byggja starf sitt á. En hún segir forsendur leiðsagnarmats vera lærdómssamfélag og setur fram þrjú megin einkenni þess:
- Unnið er að hugarfari vaxtar, þ.e. litið er svo á að með vinnu sé hægt auka greind og hæfni nemendanna.
- „Meta- cognition strategies“, þ.e. nemendur vita hvernig þeir læra, og geta hugsað um það hvernig þeir hugsa.
- Nemendur vinna í hópum með blandaðri námsgetu.
Hugmyndin um að við gerum okkar besta er að mati Clarke ekki sérlega jákvæð, þvert á móti viðheldur hún hugarfari stöðugleika. Við þurfum að trúa því að við getum gert enn betur líkt og íslenska landsliðið í handbolta söng: „Við gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar besta og aðeins betur ef það er það sem þarf“.
Myndband með erindi Carol Dweck er á síðu Krítarinnar
NKC