Mér var hugsað til hennar Siggu þegar ég heyrði veitingamann á landsbyggðinni segja frá því í útvarpsviðtali hvað sumir Íslendingar sýndu þjónustufólki hans, sem ekki talaði íslensku, mikla lítilsvirðingu þeir ættu það jafnvel til að ganga á dyr. Ástæðan fyrir því að mér varð hugsað til hennar Siggu er sú að hún er fullorðin kona sem lærði aldrei erlend tungumál og fór ekki til útlanda fyrr en eftir sextugt. Það var því ekki af ókurteisi sem hún hætti að versla í hverfis bakaríinu, heldur vegna þess að hún gafst upp á því að eiga samskipti við afgreiðslufólkið sem ekki skildi hvað hún var að biðja um. Hún er örugglega ekki eini Íslendingurinn sem þannig er ástatt um. Svo eru vissulega aðrir sem sætta sig ekki við að þjónusta á Íslandi fari fram á öðru tungumáli íslensku. Þeim finnst það eðlileg krafa að fólk sem hér býr læri þjóðtunguna fljótt og vel. Þeir vilja jafnvel gera íslenskukunnáttu að búsetuskilyrði hér á landi og telja íslenskuna vera málið fyrir þá sem kjósa að verða þátttakendur í íslensku samfélagi. Við erum fámenn þjóð og móðurmálið er okkur skiljanlega afar kært. En ef íslenskan er málið hvers vegna leggja sumir innflytjendur þá ekki meiri áherslu á að læra íslensku en raunin virðist vera? Ein skýringin gæti verið sú að það er erfitt að læra hana, en skýringarnar gætu líka verið aðrar.
Við Íslendingar erum sjálfir iðnir við að setjast að í öðrum löndum til í lengri eða skemmri tíma til að stunda nám eða vinnu. Alla jafnan má gera ráð fyrir að við tileinkum okkur ríkjandi tungumál, enda dugir íslenskan skammt. Mér segir samt hugur að okkur þyki það ekki alltaf jafn mikilvægt. Ef um er að ræða tungumál sem fáir tala, og flestir íbúarnir hafa jafnframt vald á öðru algengara tungumáli, er þá ekki síður líklegt að við lærum tungumál þjóðarinnar? Tökum sem dæmi grænlensku, velsku og jafnvel hollensku, í viðkomandi löndum getum við komist ágætlega af með dönsku og/eða ensku og sennilegt að flestir venjulegir innflytjendur nýti sér það. Það er ekki tilviljun að innflytjendur í enskumælandi löndum sýna almennt meiri áhuga á að tileinka sér nýja málið en víðast annarsstaðar, enska er nefnilega eftirsótt tungumál sem gagnast víða um heim, öfugt við grænlensku, velsku, hollensku og já, íslensku. Því miður telst íslenskan ekki til eftirsóttra mála, einmitt þess vegna ættum við að gleðjast yfir hverjum þeim sem vill læra hana, en því miður er það ekki alltaf þannig.
Ég hef kynnst fólki af erlendum uppruna sem hefur lagt mikið á sig til að læra íslensku , það hefur jafnvel lokið háskólanámi hér á landi. Engu að síður heldur uppruni þeirra áfram að koma í veg fyrir að það fái störf við hæfi, synjanirnar eru af ýmsum toga eins og t.d. að viðkomandi talar ekki önnur Norðurlandamál. Stundum hefur það hjálpað að skipta um nafn. Íslenskan virðist því ekki alltaf vera málið.
Tilkoma fjölmenningarsamfélagsins er staðreynd, innflytjendum á að öllum líkindum eftir að fjölga verulega á næstu árum og því fylgja fjölmörg spennandi tækifæri en líka ógnir sem þarf að takast á við. Ein þeirra er framtíð íslenskunnar. Hvernig ætlum við að gera það nægilega eftirsóknarvert fyrir innflytjendur, börn og fullorðna að læra íslensku? Við þurfum að horfast í augu við að tungumál lærast best í samfélagi við þá sem tala málið, það eru því ekki aðeins innflytjendurnir sem þurfa að læra. Sem betur fer fjölgar þeim Íslendingum sem gera sér grein fyrir þessu og dæmi eru um einstaklinga og hópa sem leggja sig markviss fram um að styðja innflytjendur sem vilja læra íslensku þar má t.d. nefna félagsskap kvenna sem hyggst bjóða erlendum konum til vikulegrar samveru til að tala saman á íslensku og sjálfboðaliða á vegum Rauða krossins sem aðstoða börn, sem tala annað móðurmál en íslensku, við heimanám.
Flestum þykir okkur vænt um móðurmálið okkar, en gleymum því ekki að aðfluttir Íslendingar eiga líka sitt móðurmál sem er þeim ekki síður kært. Málið er síður en svo einfalt.
NKC