Virkni kennara

Við fyrstu sýn virkuðu þess orð (sjá mynd) mjög heillandi á mig. Ábendingin til nemenda um að þeir þurfi að vera virkir í námsferlinu er góð. En þegar ég fór að velta þessum orðum aðeins  betur fyrir mér þá fannst mér óvirkni kennarans í þeim frekar æpandi. Kennarinn á  vissulega að opna dyrnar og í því felst ákveðin virkni og gert er ráð fyrir því að nemendur sjálfir stígi inn um þær, sem er gott og gilt svo langt sem það nær. Þetta virkar þannig á mig, að krafan sé í raun sú að það sé sama hvaða dyr kennarinn  opnar, nemendur  eigi að stíga möglunarlaust inn um þær. Ég spyr mig hins vegar að því hvort nemandinn beri einn ábyrgð á því ef hann  vill ekki fara inn um þær dyr sem kennarinn ætlast til að hann fari inn um? Getur verið að dyrnar sem kennarinn opnaði henti ekki öllum nemendum? Getur verið að kennarinn þurfi að finna aðrar sem nemendur vilja stíga inn um?  Er mögulegt að gömlu dyrnar sem opnaðar hafa verið árum saman séu ekki lengur áhugaverðar fyrir nemendur?

Þessar vangaveltur mínar koma upp af því að á mér brennur sú hugmynd að kennarar verði að axla faglega ábyrgð á starfi sínu og sinna því  meðvitaðir um þau miklu áhrif sem þeir hafa á það sem gerist í kennslustofunni.  Það gerir kröfu um sterka faglega virkni kennarans þegar hann ákveður hvaða  dyr hann ætlar að opna í hvert sinn.  Það þýðir að kennarinn setur sig inn í það hvernig hóp hann er að vinna með og opnar ólíkar dyr til að auka líkurnar á því að allir vilji eða geti stigið inn. Í einhverjum tilvikum þarf kennarinn að saga niður þá þröskulda sem blasa við sumum nemendum í dyragættinni, suma nemendur þarf að leiða yfir þröskuldinn og enn aðra þarf að taka í fangið og bera yfir og jafnvel styðja fyrstu skrefin fyrir innan.  Í mínum huga er það kennarinn sem verður að vera virkastur allra í kennslustofunni, hann þarf  að sjá til þess að áhugi og forvitni nemenda verði til þess að þeir brenni í skinninu til að kíkja inn um allar þær fjölbreyttu dyr sem hægt er að opna. Þær dyr eru meira að segja svo margar að kennarinn einn hefur ekki yfirsýn yfir þær allar og nemendur geta í mörgum tilvikum bent á mikilvægar dyr sem gaman er að fara inn um í fylgd með kennara og bekkjarfélögum. Sú hugmynd sem ég sé núna blasa við í þessu máltæki, sem virkaði fallegt við fyrstu sýn, hugnast mér alls ekki. Mér fellur það ekki  að kennaranum sé ætlað að  það eina hlutverk að opna dyr og síðan beri nemendur ábyrgð á  að stíga inn um þær til að eitthvað gerist.  Það vantar alveg inn í þetta allt það sem kennarinn þarf að gera áður og eftir að hann hefur opnað dyrnar til að tryggja að allir nemendur geti og vilji njóta þess sem er í boði. Það er nefnilega ekki sama hvað dyr kennarinn ákveður að opna né hvernig þær ákvarðanir eru teknar. Í því ferli reynir á fagmennsku kennarans og meðvitund um eigin ábyrgð og áhrif. Faglega sterkur kennari hikar ekki við að hafa samráð við nemendur um það hvaða dyr gæti verið forvitnilegt að opna. Meðvitaður kennari á 21. öldinni veit að mikilvægara er að nemendur læri um fjölbreytta hluti með fjölbreyttum hætti  en að þeir læri ákveðna hluti sem einu sinni þótti nauðsynlegt að allir kynnu og nú er jafnvel úreld þekking eða færni.

EK

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s