Þann 5. janúar s.l. birtist athyglisverð grein á sænska vefmiðlinu corren.se þar sem Johan Sievers fjallar um áhrif mismunandi hróss á börn. Yfirskrift greinarinnar er: Sumum frænkum getur maður ekki treyst, þær segja alltaf að allt sé frábært.
Sievers vísar í bókina „Nasse hittar en stol“ (Nassi finnur stól) þar sem segir frá Nassa sem aldrei hefur séð stól og veit ekki hvernig á að nota hann. Hann reynir með öllum mögulegum ráðum að finna honum not sem vekur mismunandi viðbrögð frá umhverfinu. Frænka hans kemur að honum og hrópar upp yfir sig “getur þú virkilega setið svona alveg sjálfur? Mikið rosalega ert þú klár. Ertu ekki stoltur?” Athugasemdir frænkunnar fá Nassa til að draga þá ályktun að sumum frænkum sé alls ekki treystandi. Þær segi alltaf að allt sé frábært. Sievers segir að krökkunum hans hafi þótt þetta atriði sögunnar mjög fyndið kannski vegna þess að þau kannist vel við fullorðið fólk sem sjálkrafa og jafnvel ómeðvitað hrósi þeim í hástert fyrir hvaðeina sem þau taki sér fyrir hendur. Það nægir að setja strik á pappír og þá er það „æðislegt“. Þegar á fjórða ári voru börnin hans farin að efast um gildi og heilindi þessa oflofs.
Í greininni er fullyrt að það sé stöðugt verið að hrósa sænskum börnum þetta er gert í þeirri trú að það gefi þeim sterka sjálfsmynd. En er það rétt? Að sögn hóps sálfræðinga við Stanford háskólann er það alls ekki svo. Sálfræðingarnir hafa varið 25 árum í að rannsaka hvernig mismunandi tegundir af hrósi móta afstöðu barna til þess að tileinka sér nýja færni og takast á við áskoranir.
Þegar börn fá hrós fyrir viðleitni t.d.: “ Þú hefur virkilega vandað þið við að gera þessa Lego byggingu og unnið lengi við til gera hana svona flotta,“ læra þau að takast á við áskoranir og njóta þeirra. Slíkt stuðlar að sterkri sjálfsmynd sem gerir börnin órög við að taka áhættu og mistakast, það má jú alltaf reynt aftur. Heilinn þróast á jákvæðari hátt þegar maður lærir að það borgar sig að sýna þrautseigju og leggja sig fram til að ná árangri og sigra.
Við lifum á tímum þar sem hæfileikar eru í hávegum hafðir eins og vinsældir hæfileikakeppna í sjónvarpi bera vott um. Alla foreldra dreymir um að börn þeirra hafi einhverja hæfileika og það hefur áhrif á hvernig við hrósum þeim. Mörg börn alast upp við hrós þar sem nær eingöngu er lögð áhersla á hæfileika eins og „rosalega ert þú góður í fótbolta“ eða „þú ert alger snillingu að teikna“.
Að hrósa börnum fyrir hæfileika í stað þrautseigju og það að leggja sig fram er hreinlega skaðlegt börnunum fullyrða bandarísku vísindamennirnir. Hættan felst í því að börnin verja allri orku sinni í að standa undir ímyndinni um að vera hæfileikarík eins og þau hafa alltaf fengið að heyra það þau séu, en samtímis forðast þau nýjar áskoranir af ótta við að mistakast og skaða sjálfsmyndina. Börnin hafa ef til vill ákveðna hæfileika sem getur hjálpað þeim að komast í háskóla, en þar fatast þeim kannski flugið af því að þau hafa verið böðuð hrósi fyrir hæfileika af ofverndandi „krullu“- foreldrum og aldrei lært að takast á við mótlæti og áskoranir.
Þetta getur verið einn kubbur í púsluspilinu sem skýrir hvers vegna dregið hefur úr árangri sænskra nemenda, segir Sievers. PISA könnunin bendir til þess að það séu ekki bara þeir nemendur sem standa höllum fæti námslega sem hrakar, árangur hinna hefur einnig dalað. Þetta tengist ef til vill afstöðu nemenda og foreldra til náms, mikilvægi þrautseigjunnar auk afstöðu til meintra hæfileika. Það eru margir færir nemendur sem hafa burði til að ná góðum árangri en slá samt slöku við, þeim finnst flott að fá góðar einkunnir – en aðeins ef þeir þurfa ekki að leggja sig fram við að ná þeim. Þeir lifa í eins konar „hæfileika“-sýndarheimi og þegar skólinn gefur ekki þær háu einkunnir sem þeir eiga von á, þá rjúka foreldrar upp til handa og fóta. „Skólinn gerir sér ekki grein fyrir hæfileikum og greind barnsins okkar, látum það skipta um skóla!“
Vissulega umhugsunarverð umfjöllun hjá Sivers, en gæti þetta líka átt við um uppeldi íslenskra barna?
NKC