Hvað gerir kennslu góða?

Shalberg og hattieHér er mjög athyglisverð upptaka þar sem Pasi Shalberg og John Hattie ræða um það hvað geri kennslu góða. Þeir félagar eru án efa í hópi skærustu stjarnanna í skólamálaumræðu heimsins í dag. Shalberg er Finni en Hattie er fæddur á Nýja Sjálandi. Upptakan ef frá ráðstefnu í Háskólanum í  Manchester 2013.

Bók John Hattie: Visible Learning sem kom út 2009 hefur verið kölluð Hinn helgi kaleikur menntamála.  Hattie hefur skilgreint 138 atriði sem hafa áhrif á námsárangur nemenda, þau má sjá hér

Pasi Shalberg er höfundur  Finnish Lessons: What Can the World Learn from Educational Change in Finland, sem kom út 2015, bókin hefur vakið athygli um allan heim.

Þegar Hattie er spurður að því hvað geri kennslu góða segist hann vera búinn að gefast upp á því að ræða um kennslu sem slíka, reynsla hans og þekking segi honum að allar kennsluaðferðir geti virkað hafi maður trú á þeim, það sem hafi meiri áhrif en allar kennsluaðferðir séu kennararnir. Það sem skipti máli sé ástríða þeirra í kennslunni. Þetta eru kennarar sem gera sér grein fyrir hvað kennsla hefur mikil áhrif á nemendur og eru þess vegna stöðugt að ígrunda hvernig þeir geti stuðlað að aukinum námsárangri nemenda sinna. Þessir kennarar geta vakið áhuga nemenda á viðfangsefnum, jafnvel þeim sem hafi ekki höfðað til þeirra áður. Umræddir kennarar hafi jafn marga nemendur í bekknum sínum og aðrir, nemendahópurinn þeirra sé jafn fjölbreyttur, nemendurnir eigi jafn flóknar fjölskyldur og tíminn sem kennararnir hafa til umráða er jafn mikill og sá sem  hinir kennararnir hafa, en þeir nái betri árangri vegna ástríðu sinnar á starfinu og vegna þess að þeir byggja staf sitt á rannsóknargögnum sínum og annarra.  Hattie segir það vandamál að í stað þess að þekking og reynsla þessara frábæru kennara sé nýtt til að þróa skólastarfið þá ríki sátt um að þegja yfir þeim og þess sé vandlega gætt að vekja ekki athygli á framúrskarandi kennurum. Þessir kennarar eru líka sjálfir fyrstir til að þakka góðan árangur dugnaði nemenda sinna, hvað þeir séu klárir, duglegir og læri mikið heima.  Þessi ríka þörf fyrir að jafna út gæði kennaranna eru að ganga frá skólunum dauðum, segir Hattie.  Það þarf þvert á móti að fagna því þegar afburða kennarar koma fram og læra af þeim.

Sahlberg kýs líka að beina orðum sínum að kennurum frekar en kennslunni sem slíkri. Hann bendir hins vegar á að það sé of mikil einföldun að gera kennarana eina ábyrga fyrir námsárangri nemenda, það séu fjölmargir aðrir þættir sem hafi áhrif á námsárangur nemendanna og flestir þeirra séu utan kennslustofunnar, eins og fram kemur rannsókn Hattie.  Góður kennari er ekki endilega stöðugt ástand, segir Sahlberg, kennari getur nefnilega verið frábær kennari eitt árið en ekki næsta ár t.d. vegna þess að hann er í öðru kennarateymi eða kominn í annan skóla. Góð kennsla snýst að hans mati um að mæta þörfum barnsins heildrænt, þar skipti ástríða kennarans miklu máli. Sahlberg telur það skipta höfuð máli að kennurum sé treyst, að þeim sé sýnd virðing og þeir fái sanngjörn laun. Hann varar við því að stjórnmálamenn taki ákvarðanir um hvernig eigi að kenna, eins og gert er í sumum löndum, og ber það saman við það ef stjórnmálamenn ætluðu að segja læknunum hvernig þeir eigi að framkvæma aðgerðir. Kennarar eru ekki síður sérfræðingar á sínu sviði en læknar. Í Finnlandi eru kennarar mjög vel menntaðir og færir um að byggja starf sitt á fræðilegum grunni. Þeir eru m.a. jafn færir um að lesa rannsóknargögn á ensku og á finnsku og fylgjast vel með. Almennt kenna finnskir kennarar 4 – 5 klukkustundir á dag og hafa því góðan tíma til að kynna sér fræðilegt efni, vera í samstarfi og til að undirbúa sig.

Umfjöllun þessara manna er okkur þörf áminning um hvað störf kennara eru áhugaverð og mikils virði.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s