Börn eiga rétt á að vera örugg í skólanum

ofbeldiÍ skólum koma mörg hundruð börn á ýmsum aldri saman á hverjum degi og dvelja þar lungann úr deginum við leik og störf. Bakgrunnur barnanna er ólíkur og þau gildi sem ríkja í  hverri fjölskyldu sem  stendur að baki  börnunum eru mjög ólík.  Það verða árekstrar á hverjum degi og ljót orð falla og stimpingar eiga sér stað.  Sumum börnum finnst í lagi að takast á en öðrum líður illa og óttast að ráðist verði á þau. Kennarar og starfsfólk skóla stillir til friðar og reynir að kenna börnunum tillitsemi og virðingu hvert fyrir öðru.  Starfsfólk í skólum veit að öll börn eiga rétt á þvi  að vera örugg í skólanum.  Það  felur í sér að börn eiga hvorki að vera  niðurlægð né  lamin af skólafélögum sínum. Í flestum tilvikum haga  börnin sér  vel  og ef kastast í kekki láta þau segjast og sjá eftir að hafa sært skólasystkini sín.  En á þessu eru yfirleitt nokkrar undantekningar í hverjum skóla.

Sum börn hafa ekki fullkomna stjórn á eigin hegðun, það getur stafað af ýmsum taugafræðilegum, tilfinningalegum eða félagslegum  ástæðum og í skólum ríkir ákveðinn skilningur á hömluleysi þessara barna,  þó reynt sé að gera þær kröfur til þeirra að þeirra hömluleysi bitni ekki á öðrum börnum.  Börn sem þjást af hömluleysi eru oft  leið yfir  að geta ekki stjórnað eigin hegðun og vilja læra að takast á við eigið hömluleysi með aðstoð foreldra, kennara og annarra sérfræðinga.  Þegar samvinnan um barnið gengur vel er góður möguleiki á að ná árangri og barnið er stutt af þeim fullorðnu í kringum það  í átt til betri hegðunar, reynt er að virkja orku þeirra með jákvæðum hætti.  Þó unnið sé markvisst með þessum börnum geta þó orðið árekstrar sem bitna á skólafélögum þeirra, ljót orð falla og hrindingar eiga sér stað.  Það er ekki ásættanlegt en erfitt að koma 100% í veg fyrir það þó margt í skipulagi skóla beinist að því að lágmarka árekstra hvatvísra barna við skólafélaga sína.

Inn á milli eru svo alltaf nokkur börn sem ekki virðast ætla sér að  læra að taka tillit til annarra þó þau virðist hafa forsendur til að  geta haft stjórn á eigin athöfnum.   Kennurum reynist oft erfiðast að glíma við þessa nemendur, ekki síst þegar menningin sem ríkir í fjölskyldu þessara barna einkennist af því að eðlilegt sé að láta hendur skipta, brúka kjaft  og ekki er horfst í augu við það heima að eitthvað athugavert sé við ógnandi eða tillitslausa hegðun barnanna.  Þegar foreldrar og kennarar barna ná ekki saman um að styðja börn til bættrar hegðunar tapar barnið alltaf.  Barn sem  fær stöðugt  hjálp við að firra sig ábyrgð og finna aðra sökudólga lærir ekki að axla ábyrgð á eigin gjörðum og fer á mis við mikilvæg Þroska tækifæri á mótunarárum sínum.

Foreldrar vilja flestir börnum sinum vel, en þeir virðast hafa mjög ólíka sýn á hvaða hegðun  er við hæfi og hvaða hegðun  ekki. Líklega er þó óhætt að halda því fram að allir foreldrar vilji að börn sín séu örugg í skólanum og geti verið þar án þess að verða fyrir hnjaski.  Til að svo megi verða þurfa allir foreldrar skilyrðislaust að  fordæma  ofbeldi, ekki bara ofbeldi gegn sínu barni heldur líka þvi að barnið þeirra beiti aðra ofbelldi. Á meðan sum börn eru alin upp við það að þau hafi rétt á því að láta hendur skipta  ef þeim finnst þau órétti beitt, verða ekki öll börn örugg í skólum. Jafnvel  þó starfsfólk skóla vinni daglega markvisst að því að kenna börnum  tillitssemi og virðingu fyrir öðrum.  Barn sem kýlir annað barn og fær foreldra sína til að réttlæta  þá athöfn  heldur áfram að láta hendur skipta þrátt fyrir að kennararnir segi að bannað sé að  beita skólafélaga  ofbeldi.  Önnur börn eiga þá á hættu að verða  lamin eða að fá yfir sig dónalegan orðaflaum, við ættum öll að geta verið sammála um að það sé ólíðandi. Því þarf að vinna að því í öllum skólum að  hverslags ofbeldi sé fordæmt og aldrei réttlætt.

EK

Færðu inn athugasemd