Nú þegar nýtt ár er við það að ganga í garð er við hæfi að minna fólk á mikilvægi þess að rækta félagsandann á vinnustaðnum. Kennarastarfið er erilsamt og krefjandi og því getur góður starfsandi skipt sköpum og lyft andanum þegar á móti blæs.
Þar sem kennarar eru upp til hópa skemmtilegt fólk og miklar félagsverur ætti ekki að koma á óvart að oft ríkir góður og líflegur félagsandi meðal starfsmanna skóla, þar er Breiðholtsskóli engin undantekning og jafnvel í nokkurri sérstöðu. Hugmyndaauðgin hefur svo sannarlega fengið að blómstra í félagsstarfinu í skólanum en auk hefðbundins félagsstarfs eins og árshátíða og vorferða hafa í áranna rás verið stofnaðir og starfræktir þar óteljandi klúbbar og félög. Með aðstoð Hildar Sigurðardóttur kennara við skólann verða hér nefndir nokkrir sem komu upp í hugann í stuttu samtali.
Gítarbandið er afrakstur sameiginlegs gítarnáms sem nokkrar tónelskar kennslukonur stunduðu af mikilli elju og með stórkostlegum árangir fyrir nokkrum árum. Æ síðan er bandið ómissandi þáttur í öllum betri veislum og uppákomum félagsmanna s.s. stórafmælum. Þá eru ósjaldan flutt lög við ljóð hirðskálds Breiðholtsskóla Sigurjónu Björgvinsdóttur.
Félagsmenn Veiðifélags kristinfræðikennara fullyrða að nafn félagsins hafi á sínum tíma tryggt þeim aðgang að veiðiskálum sem áður höfðu verið þeim lokaðir. Af tillitssemi við viðkvæmar sálir skal tekið fram að ekki var um trúboð að ræða hvorki í skólanum né við veiðarnar. Undirdeild kristnu deildarinnar, sem bar heitið Litla veiðivatnafélagið, var starfandi um hríð.
Hundavinafélag Breiðholtsskóla var stofnað vorið 1996 en þá voru sex hundar auk eigenda sinna skráðir í KHFSB. Hundarnir eru nú allir horfnir yfir móðuna miklu aðeins Postuli W. Johnson er enn meðal vor enda postulínshundur. Hann mætir ætíð og ævinlega með eigenda sínum á aðalfundi og er verndari félagsins. Eigandi Postula Lára Ingólfsdóttir skrifaði lærða grein í tímaritið Sám 4.tbl 2003 sem vakti verðskuldaða athygli annarra hundaeigenda. Fulltrúi eigenda framliðinna hunda var virkur félagi í starfinu og til eru þeir sem fullyrða að hinn framliðni hafði við ákveðnar aðstæður gelt í gengum eiganda sinn. Kattareigendum var markvisst haldið frá félaginu, þrátt fyrir mikinn þrísting, og þannig komið í veg fyrir að allt færi í hund og kött í félagsstarfinu.
Undirdeildir eru nokkrar í KHFSB og telst Vínberjasafahappdrættisdeild hvað merkust en dregið er í happdrætti þessu tvisvar á ári á kaffistofu starfsmanna. Dregið var í desemberhappdrættinu í síðustu viku við mikla gleði starfsmanna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Danskur leshópur hefur verið starfræktur undanfarin sex ár. Þar er lestur danskra fagurbókmennta í hávegum hafður auk þess sem félagar æfa flókin og metnaðarfull söng -og dansatriði sem þeir sýna á skemmtunum skólans. Framganga hópsins er, að sögn Hildar, með ólíkindum fagleg og algerlega ómissandi við skemmtanahald stofnunarinnar.
Bókbandið er leshópur eldri kennslukvenna sem hittist reglulega á öldurhúsum bæjarins og ræðir að eigin sögn nýjustu bókmenntastrauma.
Léttfeti er ekki hestamannafélag, eins og nafnið gæti gefið til kynna, heldur félag karla sem fór í árlega megrun þar sem keppt var um að tapa sem mestum þunga innan tiltekins tíma. Dæmi eru um að þátttakendur hafi verið gripnir með grjót í nærbuxunum við upphaf mælinga.
Sumarklúbburinn er klúbbur valinna núverandi og fyrrverandi kennslukvenna við skólann sem eiga saman einn fagran og sólríkan sumardag á ári hverju.
Að öðrum klúbbum ólöstuðum rís Átthagafélag Breiðholtsskóla hæst en það var stofnað 2006. Félagar eru 62 aðallega kennarar sem horfnir eru til annarra starfa eða komnir á eftirlaun auk nokkurra sem enn starfa við skólann. Markmið ÁB er að viðhalda tengslum og vináttu fyrrum starfsélaga. Starfsemin er í föstum skorðum og eru atburðir fáir en vandaðir. Vorferðalag er farið í anda fyrri tíma, þ.e. mikið sungið og sprellað. Fararstjórn er yfirleitt í höndum félagsmanna eða maka þeirra enda margt um hæfileikaríkt og frótt um sögu og jarðfræði. Árshátíð er haldin í febrúar og aðalfundur í október.
Auk alls þess sem að ofan er greint leggja margir starfsmenn stund á ýmsar aðrar íþróttir og listgreinar s.s útskurð, golf, fjallgöngur , hestamennsku og bridds að ógleymdum saumaklúbbum.
Starfsandinn í Breiðholtsskóla á örugglega sinn þátt í að kennarar hætta treglega að starfa þar en þeir sem finna sig knúna til að hleypa heimdraganum finna sér alltaf leið til að halda tengslum við gamla og góða félaga.
NKC